Inngilding, jaðarsetning og mannréttindi á Jafnréttisdögum í næstu viku

Jafnréttisdagar hafa fyrir löngu unnið sér sess sem vettvangur frjórrar, róttækrar og framsýnnar umræðu um ólíkar víddir jafnréttismála en dagarnar eru nú haldnir í 16. sinn. Markmiðið með Jafnréttisdögum er í senn að skapa umræðu um jafnréttismál í víðum skilningi og að gera þau sýnileg innan háskólanna sem utan.

 

Þema Jafnréttisdaga í ár er Inngilding, jaðarsetning og aðför að mannréttindum og boðið er upp á yfir 20 viðburði í háskólum landsins, ýmist á staðnum, í streymi eða hvort tveggja.

 

Dagskrá Jafnréttisdaga hefst á viðburði í streymi í hádeginu mánudaginn 12. febrúar en þar fjalla stjórnmálakonurnar Lenýa Rún og Sanna Magdalena meðal annars um aðgengi fólks af erlendum uppruna að stjórnmálum og hvernig hægt er að koma málefnum fólks af erlendum uppruna betur á dagskrá þings og sveitarstjórna.

 

Í framhaldinu rekur hver viðburðurinn annan og auk ofangreindra umfjöllunarefna verður fjallað um stríð og átök í samtímanum, veruleika transfólks, stöðu fólks með örorkumat, konur á flótta, aðgengi ólíkra hópa að háskólanámi, fjölbreyttar raddir íslenskunnar, fjölbreytileika og menningarnæmi, umfjöllun fjölmiðla um leikskólamál ásamt því sem boðið verður upp á jafnréttisvöfflur og -kaffi og umræður með því.

 

Háskólatónleikaröðin og Jafnréttisdagar taka höndum saman og bjóða upp á hádegistónleika með tónlistarkonunni Elínu Hall miðvikudaginn 14. janúar í Eddu á háskólasvæði HÍ. Gestir eru velkomnir á staðinn en einnig verður hægt að horfa á tónleikana í streymi.

Viðburðir á Jafnréttisdögum fara ýmist fram á íslensku eða ensku og aðgangur að þeim öllum er ókeypis. Heildardagskrá má finna á vef Jafnréttisdaga, jafnrettisdagar.is. Öll eru jafnframt hvött til að fylgjast með Jafnréttisdögum á samfélagsmiðlum.