Bleikjukynbætur

Umsjón með framkvæmd kynbótaverkefnisins hefur Einar Svavarsson ásamt samstarfsmönnum sínum. Þorvaldur Árnason prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands sér um kynbótaútreikninga og veitir fræðilega ráðgjöf við kynbæturnar.

Forsaga
Árið 1989 var hafist handa við undirbúning bleikjukynbóta með því að bera saman vöxt og kynþroskaaldur bleikjustofna úr ýmsum ám og vötnum í mismunandi eldisumhverfi. Til samanburðarins voru notuð afkvæmi villtra foreldra af 12 stofnum og afkvæmi eldisfiska úr Hólalaxi, Hólastofn, sem var samsettur úr nokkrum stofnum úr Húnavatnssýslum. Í stuttu máli voru niðurstöður samanburðarins að mikill breytileiki væri á milli stofna í vexti og hlutfalli kynþroska fiska við tveggja og þriggja ára aldur (Emma Eyþórsdóttir o.fl. 1993).
Árið 1990 var sett upp samanburðartilraun á systkinahópum af einum bleikjustofni til að meta arfgengi og fylgni þunga og kynþroskahlutfalls við mismunandi aldur. Niðurstöður þessarar tilraunar voru að þessir eiginleikar hefðu hátt arfgengi svo vænta mætti góðs árangurs af úrvali fyrir þeim (Einar Svavarsson 1999).

Stofnar
Á grundvelli niðurstaðna úr stofnasamanburði og mati á arfgengi hófust kynbætur á bleikju á Hólum í Hjaltadal haustið 1992. Efniviðurinn í kynbæturnar var fengin úr þeim stofnum sem reynst höfðu best. Æxlað var saman og innbyrðis fiskum úr eftirtöldum vötnum og ám sem mynduðu þannig kynbótastofninn sem að mestu var byggður upp á fyrstu þremur árum verkefnisins: Ölvesvatn, Grenlækur, Laxárvatn, Litlaá, Hólastofn, Víðidalsá, Miðfjarðará, Hrútafjarðará. Stofnunum er hér raða upp eftir því hver hlutdeild þeirra var í kynbótastofninum í upphafi. Tveir fyrst töldu stofnarnir sýndu yfirburði í samanburði á vexti og síðbúnum kynþroska. Reyndar var tekið inn nokkuð af utanaðkomandi efni í stofninn allt til ársins 2003. Aðallega var um að ræða sömu stofna og áður höfðu verið teknir inn, en auk þess var bætt við fáeinum fiskum úr Mývatni, Frostastaðavatni og frá Nauteyri.
Frá og með haustinu 1994 var klakfiskunum skipt í tvær línur eftir roðlit, dökku línu og ljósu línu. Grenlækjarstofninn er fyrirferðamestur í dökku línunni og Ölvesvatnsstofninn í ljósu línunni. Þannig eru í raun tveir kynbótastofnar í verkefninu. Þetta kom til vegna óska framleiðenda um mismunandi roðlit sem markaðir kölluðu eftir. Á síðustu árum hafa áherslur á roðlit minnkað og hrogn sem seld eru til bleikjueldisstöðva í flestum tilfellum blendingar dökku og ljósu línunnar. Ef einhver blendingsþróttur* er fyrir hendi þá skilar hann sér með þessu fyrirkomulagi.     

Kynbótamarkmið
Markmið kynbótanna er að rækta hraðvaxta eldisstofn, sem er frjósamur en verður þó ekki kynþroska fyrr en á þriðja hausti frá klaki, nýtir fóður vel, hefur gott viðnám gegn sjúkdómum og gefur hæsta verð á erlendum mörkuðum.
Hingað til hefur megináhersla verið lögð á aukinn vaxtarhraða og seinkun kynþroska. Hins vegar er full ástæða til að skoða hvort velja skuli fyrir fleiri eiginleikum. Rannsóknir hafa sýnt að hægt er að auka holdgæði og viðnám gegn sjúkdómum með kynbótum. Mat á þessum eiginleikum er gjarnan nokkuð kostnaðarsamt, kallar á sérstakan búnað og aðstöðu. Einnig verður að horfa til þess að þegar bætt er við eiginleikum í úrvalinu þá mun það í flestum tilfellum draga úr framförum fyrir þeim eiginleikum sem hingað til hefur verið lögð áhersla á.

Framkvæmd
Við bleikjukynbæturnar er beitt hliðstæðum aðferðum og notaðar hafa verið við kynbætur á laxi í Noregi. Hrogn úr hverri hrygnu eru frjóvguð með svilum úr einum hæng, en hver hængur frjóvgar tvær til þrjár hrygnur. Þannig eru myndaðir hópar alsystkina og hálfsystkina. Val á hængum til undaneldis er strangara en val á hrygnum þar sem hver hængur er gjarnan látinn frjóvga hrogn tveggja til þriggja hrygna. Þetta fyrirkomulag eykur hraða kynbótaframfaranna miðað við að einungis einn hængur væri notaður á móti hverri hrygnu.
Á grundvelli kynbótaeinkunnar, þar sem þyngd og kynþroski hafa jafnt vægi, og úrvalsskilyrða um gallalaust útlit eru árlega valdar um 170 hrygnur og 60-70 hængar úr um 5000 fiska hópi. Völdu fiskarnir eru notaðir til undaneldis fyrir næstu kynslóð. Undan þeim koma 170 systkinahópar sem eru aldir í sér kerjum í eitt ár frá frjóvgun. Þá fær hver fiskur merki síns systkinahóps (frostmerki og uggaklipping). Að merkingu lokinni er úrtak úr hverjum systkinahópi alið á tveimur prófunarstöðvum og í kynbótastöðinni. Við tveggja ára aldur eru allir fiskarnir vegnir, lengdarmældir, kynþroski skráður ásamt athugasemdum ef gallar eru sjáanlegir. Þessi mæling er grundvöllur kynbótaeinkunnar sem byggist á einstaklingnum sjálfum og skyldum einstaklingum (aðallega systkinum og hálfsystkinum).Til að aukning skyldleikaræktar verði ekki of mikil eru foreldrar hverrar kynslóðar valdir úr a.m.k. 30 systkinahópum. Kynslóðabilið er 3-4 ár.
Árið eftir að hrygnurnar hafa verið notaðar til undaneldis í kynbótaverkefninu eru þær notaðar til framleiðslu söluhrogna, þ.e. við 4 ára aldur og aftur við 5 og 6 ára aldur. Hængarnir sem eru notaðir á söluhrogn eru valdir mun strangar en hængar sem notaðir eru í kynbótaverkefnið vegna þess að einn hængur dugar til að frjóvga hrogn margra hrygna.
Í Sigtúni í Öxarfirði er öryggisstöð fyrir kynbótaefniviðinn til að lágmarka skaða ef eitthvað færi úrskeiðis í kynbótastöðinni á Hólum.

Guðmundur Björnsson að störfum í kynbótastöðinni.