Karfan er tóm.
- Háskólinn
- Starfsfólk
- Inspera
- Nám
- Ferðamáladeild
- Fiskeldis- og fiskalíffræðideild
- Hestafræðideild
- Hagnýtar upplýsingar
- Rannsóknir
- Vefverslun
1. Inngangur
Starfsmannastefna Háskólans á Hólum tekur til allar starfsmanna skólans og þeirra stofnana sem heyra undir hann.
Stjórnendur innan Háskólans á Hólum bera ábyrgð á því að starfsmannastefnunni sé framfylgt þ.e. rektor og háskólaráð, deildarstjórar, og aðrir þeir sem hafa mannaforráð. Skrifstofu- og fjármálasvið fylgist með framkvæmd hennar.
2. Markmið
Starfsmannastefnunni er ætlað að vera til hvatningar og upplýsingar fyrir starfsfólk og stjórnendur Háskólans á Hólum um það hvernig á að gera skólann að góðum vinnustað. Starfsmannastefnan byggir á lögum, reglum og samningum um tengsl starfsmanna og vinnustaðar, s.s. lögum um háskóla nr. 63/2006, lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 með áorðnum breytingum, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, stjórnsýslulögum 37/1993 með áorðnum breytingum, jafnréttislögum nr. 96/2000, lögum um kjarasamninga nr. 94/1986 og kjarasamningum. Jafnframt mótast starfsmannastefnan af gagnkvæmum væntingum og hagsmunum Háskólans á Hólum og starfsfólks hans.
Markmið starfsmannastefnu eru að:
• Háskólinn á Hólum gegni lögmætu hlutverki sínu og uppfylli réttmætar væntingar sem gerðar eru til skólans og starfsmanna hans,
• laða að hæft og áhugasamt starfsfólk sem helgar skólanum krafta sína,
• lýsa vilja Háskólans á Hólum til að vera góður vinnustaður,
• tryggja starfsfólki sem best starfsskilyrði og möguleika á að vaxa og dafna í starfi,
• gera stjórnun markvissari,
• starfsfólk sé vel upplýst um verkefni sín og skyldur.
3. Gagnkvæmar væntingar
Meðal þeirra almennu væntinga sem Háskólinn á Hólum hefur til starfsmanna sinna eru að þeir sýni:
• kostgæfni í starfi,
• ábyrgð og sjálfstæði,
• vilja og hæfni til samstarfs og samskipta,
• skilning og frumkvæði,
• sveigjanleika og aðlögunarhæfni,
• að þeir starfi samkvæmt samningum, lögum, reglum og stefnu sem um starf þeirra gilda.
Starfsmenn hafa einnig væntingar til Háskólans á Hólum sem vinnustaðar, sem nauðsynlegt er að skólinn uppfylli til þess að hann geti ráðið og haldi áhugasömum og hæfum starfsmönnum.
Væntingarnar eru meðal annars að:
• þeir hafi tækifæri til að axla ábyrgð og taka þátt í stefnumótun skólans og þá sérstaklega ákvarðanatöku um málefni sem varða störf þeirra,
• skyldur og ábyrgð stjórnenda séu skýrar,
• starfsöryggi sé tryggt sem frekast er unnt,
• að skólinn standi við skuldbindingar kjarasamninga, laga og reglugerða er varða, réttindi skyldur og velferð starfsfólks,
• þeim sé sýnt traust, tillitssemi og hreinskilni,
• unnið sé í góðu samstarfi og vinnuanda,
• vinnuaðstaða sé góð,
• þeim sé veitt tækifæri til að menntast og dafna í starfi,
• jafnréttissjónarmiða sé gætt á öllum sviðum háskólastarfsins.
4. Leiðir að markmiðum starfsmannastefnu:
Stjórnun
Háskólanum á Hólum er stjórnað í anda þeirrar meginstefnu að veita öllum starfsmönnum, í samræmi við hæfni þeirra og eðli starfsins, virka hlutdeild í stjórnun skólans og ákvörðunum. Háskólinn á Hólum leggur áherslu á skilvirka stjórnsýslu, þ.e. stuttar og greiðar boðleiðir, hröð inngrip í aðsteðjandi vandamál og skjóta ákvarðanatöku. Skýr ábyrgð stjórnenda er lykilatriði í þeim efnum, það er að ákvörðunarvald og ábyrgð stjórnenda gagnvart starfsfólki skulu vera vel skilgreind og starfsfólki ljós. Stjórnendur skulu vinna að settum markmiðum og viðhafa lýðræðislega stjórnunarhætti þ.e. jafnan leitast við að gera starfsfólki kleift að taka framförum, að hafa samráð við starfsfólk og beita sér fyrir sem víðtækastri sátt um málefni vinnustaðarins.
Upplýsingar, boðmiðlun og samskipti
Almennar upplýsingar um starfsemi, stjórnsýslu og stefnu Háskólans á Hólum eiga að vera aðgengilegar fyrir alla og innan skólans þurfa upplýsingar að berast greiðlega á milli starfsfólks og til nemenda. Skýrar boðleiðir og óhindrað flæði upplýsinga milli starfsfólks og starfshópa styrkir samstöðu þeirra, eykur ábyrgð og bætir samskipti. Stjórnendum ber skylda til að upplýsa starfsmenn um málefni sem varða störf þeirra sérstaklega.
Lögð er áhersla á skoðanaskipti þar sem álitamál eru vegin og metin og þar sem ágreiningur er meðhöndlaður þannig að hann efli skólann.
Virðing fyrir fólki er grundvallarviðmið og framkoma sem ógnar eða veldur öðrum óþægindum, svo sem kynferðisleg áreitni eða einelti, er alvarlegt brot í starfi. Til að skapa góðan starfsanda er einnig mikilvægt að starfsfólk og stjórnendur ástundi og rækti góð samskipti sín á milli með kurteisi, háttvísi í framkomu, umburðarlyndi og jákvæðu viðmóti.
Jafnrétti
Háskólinn á Hólum leggur áherslu á að jafnræðis og jafnréttis sé gætt á öllum sviðum háskólastarfsins. Í þessu felst m.a. að óheimilt er að mismuna starfsfólki, t.d. eftir aldri, kynferði, kynþætti, kynhneigð, fötlun, þjóðerni, trúar- eða stjórnmálaskoðunum. Mikilvægt er að starfsfólk virði jafnréttisstefnu skólans og vinni í anda hennar.
5. Ráðning, starfsferill og starfslok
Háskólinn á Hólum á að vera aðlaðandi vinnustaður þar sem hæft og dugmikið starfsfólk glímir við fjölbreytt og krefjandi verkefni og þar sem árangur í starfi er mikils metinn. Háskólinn á Hólum mun fara eftir lögum og reglum sem í gildi eru hverju sinni um málefni starfsmanna.
Þörf fyrir starfsfólk
Allar ákvarðanir um ráðningu nýrra starfsmanna skulu vera vel ígrundaðar og rökstuddar í samræmi við stefnu skólans og langtímaáætlanir um þörf á starfsfólki. Mikilvægt er að það liggi ljóst fyrir þegar auglýst er hvert sé markmiðið með ráðningunni. Tekið skal tillit til þess starfsfólks sem fyrir er. Starfslýsing skal liggja fyrir um öll störf sem ráða skal í. Þegar starfsmaður lætur af störfum skal metið hvort ráða eigi í það að nýju og þá hvort starfslýsing skuli endurskoðuð.
Starfsauglýsingar og ráðningar
Fylgt skal lögum og reglum um auglýsingu starfa og ráðningarferli og skal ráðning ætíð vera rökstudd. Þeirri meginreglu skal fylgt að auglýsa laus störf til umsóknar. Auglýsingin skal byggð á starfslýsingu viðkomandi starfs og gæta skal jafnréttissjónarmiða.
Gengið skal skriflega frá ráðningum með ráðningarsamningi og skal starfslýsing fylgja eintaki beggja aðila. Ráðning til reynslu er samkvæmt kjarasamningum og skal reynslutíminn miðast við þrjá til sex mánuði eftir eðli og umfangi starfsins. Þessi tími gefur báðum aðilum tækifæri til að meta hvort starfið henti starfsmanni til frambúðar og er lögð áhersla á að reynslutíminn sé vel nýttur til að meta það. Þegar auglýst eru störf sem krefjast hæfnisdóms skal gæta jafnræðis milli umsækjenda, samræmis í meðferð umsókna og þess að umsækjendum sé ekki mismunað vegna kynferðis eða annars.
Móttaka og fræðsla fyrir nýtt starfsfólk
Háskólinn á Hólum leggur áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki og að það finni sig í starfi frá byrjun. Næsti yfirmaður annast móttöku nýs starfsfólks, kynnir það fyrir samstarfsfólki, sér til þess að það fái fræðslu bæði um almenna starfsemi Háskólans á Hólum og þann hluta starfseminnar sem lýtur sérstaklega að starfsviði þess og um réttindi og skyldur starfsfólks. Nýju starfsfólki skal tryggð leiðsögn í starfi þ.e. að einhver yfirmanna eða samstarfsmanna taki að sér að leiðbeina hinum nýja starfsmanni á reynslutímanum og ber næsti yfirmaður eða deildarstjóri ábyrgð á að það sé gert. Erlendir starfsmenn eru hvattir til að sækja námskeið i íslensku eftir því sem við á.
Starfsþjálfun og -þróun
Háskólanum á Hólum er það kappsmál að veita öllu starfsfólki trausta og góða starfsþjálfun, viðhalda henni og auka með endur- og símenntun. Starfsfólk skal leitast við að laga sig að síbreytilegum kröfum, sem starfið gerir til þess, svo sem vegna faglegrar og tæknilegrar þróunar og vera reiðubúið að þjálfa sig til nýrra og breyttra verkefna. Mikilvægt er að starfsfólki séu ljós réttindi sín og skyldur hvað varðar símenntun.
Námsbrautir og námskeið skólans standa starfsfólki opin, ef aðstæður leyfa og skólinn hvetur starfsfólk til að nýta sér þau. Háskólinn á Hólum stuðlar einnig að tækifærum starfsmanna við rannsóknir og kennslu, til að stunda viðbótarnám til æðstu prófgráðu. Mikilvægt er að starfsfólki sé gefinn kostur á að sækja innlendar og erlendar ráðstefnur, námskeið og rækja samstarf við innlend og erlend starfssystkin eftir því sem kostur er, enda sé þjálfunin markviss og sýnt að hún muni nýtast í starfinu.
Að frumkvæði stjórnenda skulu ár hvert í apríl lagðar fram áætlanir um þörf fyrir sí- og endurmenntun fyrir næsta tímabil og árangurinn af þeim áætlunum metinn að hverju tímabili loknu.
Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að síbreytilegum kröfum, sem starfið gerir til þeirra, eins og vegna faglegrar og tæknilegrar þróunar. Starfsmenn skulu vera reiðubúnir að þjálfa sig til nýrra og breyttra verkefna. Flutningur milli starfa eykur möguleika starfsfólks á samfelldum starfsferli, vinnur gegn einhæfu vinnulagi og veitir starfsfólki meiri og betri þekkingu á hinum ólíku þáttum háskólastarfsins og er að því leyti liður í starfsþjálfun þeirra. Háskólinn á Hólum mun leitast við að verða við óskum um flutning milli starfa eftir því sem kostur er.
Starfsmannasamtöl
Árangur í starfi og markmið skulu rædd í starfsmannaviðtölum milli starfsmanns og næsta yfirmanns með reglubundnum hætti a.m.k. einu sinni á ári. Markmið starfsmannaviðtalsins er að stuðla að velferð starfsmanna, gæðastjórnun og bættum starfsárangri sem og gagnkvæmri upplýsingamiðlun. Samtölunum er ætlað að auðvelda starfsmönnum og stjórnendum að ná settum markmiðum, að skerpa vitundina um þessi markmið og þá ábyrgð sem þeim fylgir og að skapa gagnkvæmt traust. Mikilvægt er að viðtölin séu vel undirbúin, þeim sé vel fylgt eftir og trúnaðar sé gætt á öllum stigum.
Starfslok
Háskólinn á Hólum vill geta boðið starfsfólki sínu sveigjanleg starfslok ef það óskar þess. Leitast skal við að auðvelda starfsfólki þá breytingu á högum sínum sem af starfslokum leiða.
Fastráðinn starfsmaður á kost á starfslokaviðtali þegar hann lætur af störfum. Slíkt starfslokaviðtal gefur vinnustaðnum tækifæri til að draga lærdóm af ábendingum starfsmannsins um það sem betur má fara í starfstilhögun, stjórnun o.fl.
Starfsskilyrði
Háskólinn á Hólum leitast við að tryggja hverjum starfsmanni sínum þau skilyrði og þá aðstöðu sem hann þarf til að rækja starf sitt vel.
Launamál
Háskólinn á Hólum vill bjóða launakjör sem laða að hæft starfsfólk og halda því í starfi.
Laun skulu ákvörðuð á grundvelli hlutlægra og gagnsærra mælikvarða. Matskerfi akademískra starfa annars vegar og starfsmat stjórnsýslu- og þjónustustarfa hins vegar skulu tryggja samræmi og réttláta launaröðun starfsfólks. Meta skal árlega framlag hvers og eins, starfslýsingar skulu ávallt liggja fyrir og þess skal sérstaklega gætt að starfsfólki sé ekki mismunað í launum vegna kynferðis eða annars.
Vinnutími
Vinnutími skal að jafnaði vera í samræmi við viðkomandi stofnanasamning og starfshlutfall. Komi til þess að vinna þurfi yfirvinnu er það sameiginleg ákvörðun starfsmanns og skólans. Háskólinn á Hólum vill eftir megni taka tillit til óska starfsfólks um vinnutíma og starfshlutfall. Skólinn leggur áherslu á stundvísi, góða ástundun og að verkefnum sé lokið fljótt og vel.
Háskólinn á Hólum leitast við að skapa starfsmönnum sínum aðstæður til að samræma skyldur starfsins og fjölskyldunnar. Starfsmönnum skal gefinn kostur á tímabundinni lækkun starfshlutfalls og sveigjanlegum vinnutíma vegna fjölskylduábyrgðar eftir því sem unnt er og án þess að það hafi áhrif á starfsframa þeirra. Skólinn hvetur feður sérstaklega til þess að nýta sér möguleika sína til að samræma starfs- og fjölskylduábyrgð.
Orlof
Við töku og skipulag orlofs skal taka tillit til þess að Háskólinn á Hólum er mennta- og vísindastofnun og sum verkefni eru eftir fastri áætlun. Starfsfólk skal skipuleggja orlof sitt í samráði við yfirmann og/eða nánustu samstarfsmenn, helst eigi síðar en fyrir lok febrúar ár hvert.
Starfsaðstaða og starfsumhverfi
Næsti yfirmaður metur í samráði við yfirstjórn skólans þörf starfsfólks fyrir vinnuaðstöðu og tækjakost. Áherslu ber að leggja á öruggt, heilsusamlegt og hvetjandi vinnuumhverfi og nauðsynlegan tæknibúnað. Háskólinn á Hólum kynnir og fylgir eftir gildandi lögum og reglum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Mikilvægt er að kennslustofur séu vel búnar og skapi aðlaðandi umgjörð um nám og kennslu og sömuleiðis skal Háskólinn á Hólum kosta kapps um að halda uppi góðri stoðþjónustu í þágu kennslu og rannsókna.
Starfsmenn bera sjálfir ábyrgð á að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra um aðgætni í starfi og leggja þannig fram mikilvægan skerf til aukins starfsöryggis.
Heilsurækt og félagsstarf
Háskólinn á Hólum leggur starfsfólki sínu til aðstöðu til heilsuræktar í íþróttahúsi og sundlaug, og stuðlar með því að bættri líðan og heilsu þess.
Háskólinn á Hólum vill efla samvinnu og samneyti starfsfólks og stuðla að ýmiss konar félagsstarfi, t.d. með því að leggja því til aðstöðu eftir því sem unnt er.
Skólinn á samstarf við starfsmannafélagið um að skapa svigrúm og finna hagkvæmar lausnir til að efla félagslíf og heilsurækt.
Samþykkt af háskólaráði, 23. september, 2014.