Hólar í Hjaltadal – Endurreisn þjóðmenningarstaðar

Nú í febrúar kom út skýrsla um frumhönnun endurreisnar þjóðmenningarstaðarins Hóla í Hjaltadal. Höfundur skýrslunnar er Arna Björg Bjarnadóttir en skýrslan er unnin af frumkvæði Háskólans á Hólum, vígslubiskups Hólastiftis, Söguseturs íslenska hestsins og SSNV með stuðningi frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

 

Hólar í Hjaltadal eru á meðal söguríkustu staða Íslands og án efa söguríkasti staður Norðurlands og á árum áður einn af helstu áfangastöðum Norðurlands. Á umliðnum áratugum hefur umhverfi og innviðir Hólastaðar látið undan og þarfnast nú brýnna viðhaldsaðgerða og uppbyggingu innviða. Háskólinn á Hólum hefur annast staðarhald á Hólum þó svo að honum hafi hvorki borið lagaleg skylda til þess né notið til þess fjárframlags frá ríkinu.

Háskólinn á Hólum fær greitt rétt eins og aðrir háskólar á Íslandi skv. reiknilíkani sem miðast að mestu leiti við kennslu og rannsóknir. Skólinn fær því eingöngu greitt skv. skilgreindri háskólastarfsemi en ekki skv. fjölda íbúa á Hólum eða fjölda ferðamanna sem heimsækja Hóla. Með öðrum orðum, ríkið gerir ekki ráð fyrir kostnaði við staðarhaldi á Hólum í fjárveitingum sínum til Háskólans á Hólum.

Í desember sl. samþykkti háskólaráð Háskólans á Hólum að taka út úr starfsreglum skólans grein varðandi ábyrgð skólans á staðarhaldi á Hólum og samstarfi við ríki, sveitarfélög og stofnanir um málefni Hólastaðar, til að gæta samræmis milli lagalegrar ábyrgðar skólans og starfsreglna skólans. Ábyrgð á staðarhaldi Hólastaðar er því í lausu lofti og afar mikilvægt að eigandi Hóla, íslenska ríkið bregðist við stöðunni og tryggi veg og virðingu Hólastaðar til framtíðar.