Heimsókn reiðkennara og dýralæknis frá Japan

Í haust fékk skólinn óvenjulega heimsókn frá Japan þegar Tomoko Yoshihara kom til að fræðast um íslenska hestinn. Hún er bæði reiðkennari og dýralæknir og vinnur í Tsushima City (Nagasaki, Japan) og situr þar í nefnd sem kallast „Taishu-horse Conservation Association”. Aðalmarkmið nefndarinnar er að vinna að verndun japanskrar hestategundar sem heitir Taishu-hesturinn sem er í útrýmingarhættu og eru einungis 55 lifandi hestar eftir. Mikil áskorun er að halda stofninum heilbrigðum og reyna að halda skyldleikanum í skefjum. Tomoko er að rannsaka DNA í Taishu-hestinum til að hafa yfirlit yfir erfðafræðilegan breytileika stofnsins.

Markmið heimsóknar hennar til Íslands var fyrst og fremst að læra um hvernig Íslenski hesturinn er notaður og hvernig við varðveitum stofninn hér á Íslandi. Þannig vildi hún sjá hvort hægt væri að nýta eitthvað sem við gerum hér til að varðveita og nota Taishu-hestinn í Japan.

Skipulagt var að hún mundi koma um Laufskálaréttarhelgina til þess að ná að sjá og upplifa sem mest. Hún kom í Hóla á fimmtudegi og fékk að skoða skólann, læra um námið, skoða skólahestana og aðstöðuna okkar. Einnig fékk hún að fara á bak og fá smá innsýn í hvernig íslenski hesturinn er. Reiðkennarinn Klara Sveinbjörnsdóttir kenndi henni ásamt einum af skólahestunum okkar Mörk frá Hólum.

 

Auk heimsóknar í Hóla fékk hún að upplifa stóðréttir í Unadal og einnig Laufskálaréttir og sá reiðhallarsýningu í Svaðastaðahöllinni á föstudagskvöldið.

 

Tomoko segir að hún hafi lært mikið í þessu ferðalagi og sér að íslenski hesturinn er samofin íslenskri þjóð og nýtur greinilega mikilla vinsælda. Íslenski hesturinn er stolt þjóðarinnar og ber fólk greinilega mikill virðing fyrir hann bæði hérlendis og erlendis. Tomoko fannst eftirtektarvert hve mikið af erlendum gestum voru viðstaddir t.d. i Laufskálarett.

Tomoko segist hafa skynjað hversu mikilvægt sé að hafa skýrt ræktunarmarkmið og hlutverk fyrir hestakyn eftir að hafa komið til Íslands. Það sé eitthvað sem þurfi að huga betur að fyrir japanska Taishu-hestakynið.

Í Japan eru margar hestategundir og 8 tegundir teljast til upprunalegra japanskra hesta. Taishu hesturinn sem Tomoko og hennar samstarfsfélagar eru að rannsaka er ein þessara átta tegunda og eru í útrýmingarhættu. Eftir ferðalagið hingað segir hún að vandamálið með Taishu hestinn sé sennilega fyrst og fremst að tegundin hefur í dag ekki lengur neitt hlutverk í Japan og að fólk í dag hefur ekki áhuga á að kynnast þessari hestategund. Hún upplifði ræktunarmarkmiðið fyrir íslenska hestinn mjög skýrt og að hann njótimikilla vinsælda í keppni og sýningum, en hún segir að það er ekki til ræktunarmarkmið fyrir Taishu hestinn og hann vanti alveg hlutverk í japanska samfélaginu. Taishu hestinn var áður fyrr vinnuhestur hjá bændum, eins og íslenski hesturinn var í gamla daga en hefur í dag ekkert hlutverk með tilkomu vélavæðingar í landbúnaði.

 

Skemmst er frá að segja að Tomoko var yfir sig hrifin af lífinu og fjörinu tengt hestamennskunni hjá okkur og langar ekkert meira en að fá að koma aftur á næsta ári.

 

Hér má lesa grein eftir Tomoko Yoshihara o.fl. úr tímaririð: J Equine Sci., birt 2022 um erfðafræðileg breytileiki í Taishu-hestinn, „Genetic diversity analysis and parentage verification of Taishu horses using 31 microsatellites“ (DOI: 10.1294/jes.33.63) https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/36699201/