Fulltrúar Háskólans á Lagarlífsráðstefnu í Hörpu

Háskólinn á Hólum er einn af styrktaraðilum ráðstefnunnar og sinnir þar mikilvægu hlutverki sem snýr að menntun og rannsóknum innan greinarinnar. Hólmfríður Sveinsdóttir rektor stýrði málstofu sem bar heitið Sögur úr lagareldi og Eva Kuttner lektor flutti erindið Sögur frá Háskólanum á Hólum. Á Hólum í Hjaltadal er íslenskt bleikjueldi starfrækt og er rekið af háskólanum og fiskeldis- og fiskalíffræðideild hans. Hér var sagan sögð frá handskrifuðum athugasemdum til kynbótaverðmætaútreikninga í dag og áskoranir í bleikjueldi ræddar. Að Hólum hefur fiskeldi verið kennt í 40 ár og var fiskeldismenntun á Íslandi einnig gerð góð skil. Háskólinn var með kynningabás á sýningasvæði ráðstefnunnar og kynnti þar einnig samstarfsverkefnið BRIDGES ásamt Háskólanum á Akureyri og Fisktækniskóla Íslands.

Margt annara áhugaverðra erinda var á boðstólnum og glærusýningarnar má sækja inni á vefnum lagarlif.is.