Dr. Camille Anna-Lisa Leblanc við útskrift Háskólans á Hólum vorið 2024
Einn akademískur starfsmaður Háskólans á Hólum(HH) hefur hlotið framgang í starfi að undangengnu ítarlegu mati dómnefndar á vegum Háskóla Íslands. Fulltrúi HH átti sæti í dómnefndinni en rektor HH veitir framgang.
Markmið framgangskerfis opinberra háskóla er að hvetja akademíska starfsmenn til virkni og árangurs í starfi og auka þannig gæði kennslu og rannsókna innan skólans. Mat á framgangi byggir á heildstæðu faglegu mati á frammistöðu og árangri í rannsóknum, kennslu, stjórnun og þjónustu í þágu Háskólans á Hólum og samfélagsins.
Það er sérlega ánægjulegt að Dr. Camille Anna-Lisa Leblanc dósent og deildarstjóri Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar hljóti framgang í prófessor sem ber vitni um hið öfluga rannsóknastarf og metnaðarfullu kennslu sem fram fer innan Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar sem og við skólann í heild.
Háskólinn á Hólum óskar Dr. Camille Anna-Lisa Leblanc innilega til hamingju með árangurinn.