Fjölbreytni innan tegunda og hvernig skal vernda hana – ný grein

Fjölbreytni innan tegunda er mjög algeng hjá ferskvatnsfiskum á norðurslóðum. Slík fjölbreytni er sérstaklega áberandi hér á landi og er tilkomin vegna flókins samspils vist-, þróunar- og þroskunarfræðilegra þátta sem leiða til myndunar afbrigða og jafnvel nýrra tegunda. Fjölbreytni í svipgerð og erfðum er lykilþáttur fyrir alla þróun og viðhald líffræðilegrar fjölbreytni á öllum stigum. Þrátt fyrir það er mjög sjaldgæft að lög og reglur náttúruverndar nái til þessa fjölbreytileika og þeirra ferla sem hann móta.

Í nýrri grein í tímaritinu Aquatic Conservation Marine and Freshwater Ecosystems (https://doi.org/10.1002/aqc.4076) er bent á mikilvægi fjölbreytni innan tegunda fyrir náttúruvernd og mögulegar leiðir til að taka tillit til hennar þegar kemur að stýringu og verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Aðalhöfundur greinarinnar er J. Peter Koene, doktorsnemi við háskólann í Glasgow, og meðhöfundar hans koma frá Skotlandi og Íslandi. Íslensku höfundarnir, Bjarni K. Kristjánsson, Camille A.-L. Leblanc og Skúli Skúlason, koma allir frá Háskólanum á Hólum.