Karfan er tóm.
- Háskólinn
- Starfsfólk
- Inspera
- Nám
- Ferðamáladeild
- Fiskeldis- og fiskalíffræðideild
- Hestafræðideild
- Hagnýtar upplýsingar
- Rannsóknir
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Nýlega komu út tvær skýrslur á vegum Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum um rannsóknir á enskuvæðingu í íslenskri ferðaþjónustu. Höfundar skýrslnanna eru Anna Vilborg Einarsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir lektorar við Háskólann á Hólum og Ágústa Þorbergsdóttir deildarstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar. Fyrri skýrslan ber heitið Nöfn fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu og hin síðari Staða málstefnu í stoðkerfi ferðaþjónustunnar. Skiptir hún máli?
Eftir Eyjafjallajökulsgos árið 2010 fjölgaði ferðamönnum stöðugt og sömuleiðis enskum nöfnum fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu og nokkur rótgróin ferðaþjónustufyrirtæki með íslensk heiti tóku upp ensk nöfn. Hvort tveggja leiddi til þess að sett var af stað rannsókn árið 2019 til að kanna hvaða tungumál eru notuð í ferðaþjónustu og hvernig. Markmið rannsóknarinnar var að afla þekkingar á viðhorfi ferðaþjónustuaðila til tungumála í ferðaþjónustu með það fyrir augum að öðlast skilning á ákvörðun þeirra að velja fremur ensku en íslensku í nöfnum fyrirtækjanna, í markaðssetningu ferðaþjónustunnar, í kynningarefni, á matseðlum og skiltum. Markmiðið var einnig að afla þekkingar á stöðu íslensku frá sjónarhorni og áherslum sveitarfélaga og ferðamálayfirvalda um notkun tungumála í ferðaþjónustu. Öll sveitarfélög landsins fengu sendar spurningar, átta landshlutasamtök og jafn margar markaðsstofur auk Vegagerðarinnar vegna vegvísa og upplýsingaskilta meðfram vegum.
Nöfn fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu
Upplýsingum var safnað um stefnu í notkun tungumála í ferðaþjónustunni með áherslu á auglýsingar og upplýsingar á skiltum. Að auki var upplýsingum safnað um nafngiftir ferðaþjónustufyrirtækja og fyrirtækin flokkuð eftir starfsemi til að varpa ljósi á það hvort erlendar nafngiftir tengdust frekar einni grein ferðaþjónustu en annarri. Spurningalisti var sendur til ríflega 1000 ferðaþjónustufyrirtækja sem báru erlent nafn og 30 viðtöl tekin við ferðaþjónustuaðila á Suðurlandi og Norðurlandi.
Staða málstefnu í stoðkerfi ferðaþjónustunnar. Skiptir hún máli?
Sveitarfélögin voru spurð um áherslur í málstefnu sinni með tilliti til ferðaþjónustu á svæðinu og hvort og þá hvaða skorður væru settar gagnvart tungumálum og hvernig þeim væri fylgt við leyfisskyld upplýsinga- og þjónustuskilti. Landshlutasamtök sveitarfélaganna voru spurð um hvort mótuð hefði verið stefna um málfar og tungumálanotkun gagnvart merkingum og skiltum sem tengdust ferðamennsku og markaðsstofurnar voru spurðar hvort og þá hvaða áherslur þær legðu á málnotkun í kynningum á sínum vegum. Þá var Vegagerðin m.a. spurð um stefnu um málfar á skiltum og hvort hún hefði leiðbeiningar til þeirra sem óska eftir að setja upp skilti.
Niðurstöður gefa vísbendingar um að ferðaþjónustuaðilar telji að enska verði að vera ráðandi tungumál í ferðaþjónustu, sérstaklega í markaðssetningu og færri en fleiri sjá ástæðu til þess að nota íslensku meðfram ensku. Ferðaþjónustuaðilum virðist ekki auðvelt að halda íslenskri tungu á lofti eða nota hana í sinni þjónustu en brýnt er að þeir átti sig á vandanum og velti fyrir sér hvernig best er að taka á málinu. Fá sveitarfélög hafa sett fram málstefnu þrátt fyrir ákvæði þar um í sveitarstjórnarlögum frá 138/2011, hvorki fyrir almenna opinbera notkun né leiðsögn til ferðaþjónustufyrirtækja um málnotkun. Markaðsstofurnar, landshlutasamtökin og Vegagerðin fylgja engum sérstökum reglum eða stefnu um málnotkun í markaðssetningu, hvorki á vefum eða skiltum. Uppbyggingar- og menningarsjóðir landshlutasamtaka og sveitarfélaga sem oft styrkja ferðaþjónustufyrirtækin í markaðssetningu hafa engar reglur um málnotkun gagnvart henni.