Fyrr í dag var brautskráningarathöfn Háskólans á Hólum haldin í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð og var þetta fyrsta brautskráningathöfn nýs rektors, Hólmfríðar Sveinsdóttur. Ingunn Eir Andrésdóttir flutti ávarp nemenda.
Frá skólanum brautskráðust einstaklingar frá fimm þjóðlöndum. Auk Íslands voru nemendur frá Finnlandi, Kosovo, Rúmeníu og Þýskalandi.
Alls brautskráðust 40 nemendur. Frá Ferðamáladeild brautskráðust 17 einstaklingar, sjö með diplómu í viðburðastjórnun, þrír með BA gráðu í stjórnun ferðaþjónustu og móttöku gesta og sjö með BA gráðu í ferðamálafræði.
Frá Fiskeldis- og fiskalíffræðideild brautskráðust átta einstaklingar, sjö með diplómu í fiskeldsfræðum og einn með MS gráðu í sjávar- og vatnalíffræði.
Frá Hestafræðideild brautskráðist 15 einstaklingar, allt konur, með BS í reiðmennsku og reiðkennslu. Athöfnin var gleðistund enda höfðu flestir nemendurnir lagt stund á nám við mjög krefjandi aðstæður þegar samkomutakmarkanir og samkomubönn voru tíð á þessu tímabili og komu oft í veg fyrir hefðbundið skólastarf.
Um tónlistarflutning við athöfnina sáu Sigurlaug V. Eysteinsdóttir og Sigfús Benediktsson.
Útskrift Háskólinn á Hólum Júní 2022, ávarp rektors.
Kæru útskriftarnemar, starfsfólk Háskólans á Hólum og aðrir gestir, til hamingju með daginn. Það er satt best að segja skrítið fyrir mig að standa hérna í dag og ávarpa ykkur í tilefni útskriftar ykkar frá Háskólanum á Hólum og vera að sjá flest ykkur í fyrsta skipti. En ástæðan fyrir því er sú að það eru einungis 10 dagar síðan ég tók við embætti rektors háskólans.
En eins og með svo margt í lífinu þá er það ekki ein manneskja sem ber hlutina uppi og það á sannarlega við um menntun fólks. Í dag útskrifast 40 nemendur Háskólans á Hólum með mismunandi námsgráður frá þremur fræðasviðum háskólans. Að menntun hvers og eins hafa komið fjöldi fólks, m.a. fólk úr þeim atvinnugreinum sem fræðasvið háskólans byggja undir. En megin þungan hafa þó kennara og starfsfólk skólans borið uppi.
Því er það mér mikill heiður, þrátt fyrir stuttan tíma í starfi að fá að taka þátt í þessum merka áfanga í ykkar lífi kæru útskriftarnemar.
Samfélagið í dag kallar á mikla aðlögunarhæfni einstaklinga að síbreytilegum aðstæðum. Því krefst lífið þess að við séum fljót að lesa í hlutina og bregðast við, tileinka okkur nýjungar og vega og meta hvað eru tækifæri og hvað eru ógnir.
Að útskrifast úr háskóla merkir í mínum huga að einstaklingurinn hefur öðlast færni til að tileinka sér ákveðið viðfangsefni og vinna áfram með það. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar út í atvinnulífið er komið og vera óhræddur við að takast á við nýja hluti og gera þá að sínum. Störf sem eru til í dag og hugsanlega störf sem þið hafið menntað ykkur í að sinna, geta verið horfin eða tekið svo miklum breytingum að eftir á eru allt aðrar kröfur gerðar til manneskjunnar sem sinnir því.
Mér finnst mikilvægt að þið sem eruð að útskrifast hér í dag hafið þetta hugfast. Verið því vakandi fyrir breytingum í samfélaginu og takist á við verkefnin sem að ykkur eru rétt af opnum hug. Þið eruð öll búin að ná að tileinka ykkur og sérhæfa ykkur í ákveðnu viðfangsefni að minnsta kosti einu sinni í lífinu og þið getið gert það aftur og aftur.
Það sama má segja um menntastofnanir. Þær þurfa sömuleiðis að vera vakandi fyrir breytingum í samfélaginu. Háskólar eru stofnanir sem oft er talað um að séu eins og olíuskip sem erfitt er að snúa. Og að mínu mati á það að sumu leiti að vera þannig þar sem þeirra hlutverk er að afla, miðla og síðast en ekki síst varðveita þekkingu. En hvernig þekkingu er aflað og miðlað hefur breyst mikið og sérstaklega á síðustu þremur árum. Á þessu tímabili reyndi mikið á kerfið en ekki síst á ykkur nemendur góðir.
Þegar Covid-19 skall á heiminum í byrjun árs 2019 og fólk hætti að koma saman vegna þess að það var beinlínis hættulegt voru góð ráð dýr. Fjarkennsla tók við af hefðbundinni kennslu í kennslustofum og verkleg kennsla lagðist af á tímabili eða þar sem því var komið við var kennd í gegnum netið.
Þið sem eruð að útskrifast hérna í dag hafa mörg hver tekið allt ykkar nám í þessum erfiðu aðstæðum en merkilegt nokk, það verður ekki alfarið snúið tilbaka. Því að mörgu leiti voru breytingarnar sem áttu sér stað til góðs þegar upp er staðið þar sem þær juku aðgengi fólks óháð búsetu til náms. Breytingarnar voru líka til góðs fyrir menntastofnanir og sérstaklega minni háskóla á landsbyggðinni eins og Háskólann á Hólum þar sem nemendur geta stundað nám við skólann án þess að þurfa að flytja búferlum á staðinn nema þá í einstaka tilfellum eins og þegar um mikla verklega kennslu er að ræða eins og í hestafræðinni.
En ég veit að þetta var erfitt fyrir ykkur og kennarana ykkar og sérstaklega í byrjun þegar tæknin og þekkingin var ekki fullkomlega til staðar. En við náðum að þróast og tileinka okkur tæknina og aðlaga okkur þannig að breyttum aðstæðum og það sem er mest merkilegt, nýta okkur breytinguna til eflingar ykkar og skólans. Og hér eruð þið í dag að útskrifast frá ykkar deildum með mismunandi háskólagráður á sviði fiskeldi og fiskalíffræði, ferðamálafræði og hestafræði, en síðast en ekki síst eruð þið búin að sanna fyrir ykkur og öllum öðrum og má eiginlega segja þegar litið er á tímabilið sem þið voruð í náminu að þið séuð með háskólapróf upp á einstaka aðlögunarhæfni að breyttum aðstæðum.
Sem veganesti út í lífið þá langar mig til að biðja ykkur þegar þið standið frammi fyrir því að aðstæður breytast, hvort sem það er í lífi eða starfi að hugsa til þessara ára með stolti og hugsa, „ég náði mínum markmiðum þrátt fyrir að heimurinn færi á hvolf“. Takk fyrir og gangi ykkur öllum sem best í því sem þið takið ykkur fyrir hendi.
Að athöfn lokinni bauð háskólinn nýbrautskráðum Hólamönnum, aðstandendum og starfsfólki til veglegrar veislu sem Kaffi Hólar sáu um.
Við óskum öllum nemendunum sem brautskráðust og fjölskyldum þeirra í dag hjartanlega til hamingju!
Myndir frá brautskráningunni eru teknar af Sigurði Inga Pálssyni.