Þann 31. maí var haldin hátíðleg athöfn þegar fóru fram formleg rektorsskipti við Háskólann á Hólum. Erla Björk Örnólfsdóttir lét af störfum sem rektor og Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir tók formlega við embættinu.
Sveinn Margeirsson fulltrúi háskólaráðs stýrði athöfninni, meðal annara dagskrárliða var tónlistarflutningur í höndum Gunnars Rögnvaldssonar.
Hér fyrir neðan er ræða nýs rektors og nokkrar myndir frá athöfninni.
Það er mér mikill heiður að taka við embætti rektors Háskólans á Hólum. Ég er fædd og uppalin í Skagafirði og hef fylgst með þeirri gæfuríku þróun og uppbyggingu sem átt hefur sér stað innan skólans, allt frá því að skólinn var bændaskóli og fram til dagsins í dag þar sem Háskólinn á Hólum er einn af 4 opinberum háskólum á Íslandi.
Þrátt fyrir að Háskólinn á Hólum sé minnstur opinberra háskóla á Íslandi er skólinn öflugur háskóli sem býður upp á gæðanám á grunn- og framhaldsnámsstigi háskóla svo ekki sé minnst á öflugt rannsóknastarf. Háskólinn er miðstöð þekkingar á þremur sérsviðum sem eru hestafræði, ferðamálafræði og fiskeldis-, sjávar- og vatnalíffræði.
Sérstaða fræðasviða háskólans er mikil. Fiskeldis-, sjávar- og vatnalíffræðideildin er t.d. eina deildin á Íslandi sem býður upp á nám í fiskeldi á háskólastigi. Til framtíðar litið er fiskeldi og matvælaframleiðsla í sjó og vatni eitt mikilvægast viðfangsefni samfélagins til að tryggja fæðuöryggi. Því er spáð að árið 2050 munu jarðarbúar vera 9.8 milljarðar og þetta þýðir aðeins eitt, matvælaframleiðsla heimsins þarf að aukast til að hægt sé að tryggja fæðuöryggi. Og matvælaframleiðslan verður að aukast á sjálfbæran hátt og það verður ekki gert með því að auka ræktunarland með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á loftslag, líffræðilegan fjölbreytileika og vistkerfi jarðarinnar.
Við getum einungis tryggt fæðuöryggi á sjálfbæran hátt með því að auka matvælaframleiðslu í vatni og sjó. Hér er fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum í lykilstöðu sem eini háskólinn á Íslandi með nám í fiskeldi innan sinna raða svo ekki sé minnst á öflugar rannsóknir deildarinnar á sviði fiskeldis og fiskalíffræði. Á þessu eigum við að byggja og stefna ótrauð áfram í frekari uppbyggingu deildarinnar og svara kalli iðnaðarins um menntun sérfræðinga á sviði þörunga og þörungaeldis.
Sama má segja um ferðamáladeild skólans sem er einstök vegna fjölbreyttra námsleiða og tengingu námsleiða við útivist, dreifbýli og náttúru. Sífellt fleiri ferðamenn og sérstaklega núna eftir COVID-19 velja að ferðast utan þéttbýlis og því gegnir deildin mikilvægu hlutverki í að mennta einstaklinga með afburðarþekkingu og stunda rannsóknir á ferðamennsku utan þéttbýlis og byggja þannig undir þessa mikilvægu stoð íslensks efnahagslífs.
Hestafræðideild Háskólan á Hólum er einstök á heimsvísu. Þaðan útskrifast nemendur með einstaka hæfileika og þekkingu á sviði íslenska hestins. Á Íslandi er deildin opinber miðstöð menntunar og rannsókna á sviði hestamennsku, tamninga, reiðmennsku og reiðkennslu. Deildin þjónar Íslandshestamennskunni um allan heim sem fer ört vaxandi og því eru mikil tækifæri fyrir háskólann að fylgja eftir og styðja við þá þróun með rannsóknum og nýsköpun.
En það er mikil ábyrgð sem felst í því að stýra háskóla þó svo að hann sé ekki stór og þetta á sérstaklega við um Háskólann á Hólum þar sem hann hverfist um og styður við mikilvægar atvinnugreinar á Íslandi. Þessari ábyrgð ætla ég ekki að skorast undan og mun ég gera mitt besta til þess að halda áfram því mikla og góða starfi sem Skúli Skúlason hóf sem fyrsti rektor Háskólans á Hólum og Erla Björk Örnólfsdóttir fráfarandi rektor hafa sinnt með mikilli alúð og fagmennsku ásamt sínu samstarfsfólki.
Ég veit að mín bíða allskonar áhugaverð og skemmtileg verkefni sem mig hlakkar til að takast á við. En sérstaklega hlakkar mig til að kynnast öllu því færa og góða fólki sem við skólann starfar og vinna með þeim að því að gera Háskólann á Hólum að enn öflugri háskóla með sterka tengingu við samfélagið og atvinnulífið.
Við óskum Hólmfríði velkomna til starfa og hlökkum til framtíðarinnar.
Tónlistaratriði var í umsjón Gunnars Rögnvaldssonar, hér má einnig sjá hluta veislugesta. Sigfús Ingi sveitarstj. Skagafjarðar færir Hólmfríði blómavönd.
Skúli Skúlason og Erla Björk Örnólfsdóttir fyrrv.rektorar ásamt núverandi rektor.