Styrkur í rannsóknar- og þróunarverkefni um ábyrga eyjaferðaþjónustu

Nýverið hlaut Háskólinn á Hólum styrk úr Frumkvæðasjóði Byggðastofnunar til rannsókna og þróunar á ábyrgri eyjaferðaþjónustu. Verkefnið er unnið í Grímsey í nánu samstarfi við samfélagið í eyjunni og með hagsmuni þess og náttúrunnar að leiðarljósi.

Grímsey er nyrsta byggða ból á Íslandi þar sem útgerð hefur verið grunnatvinnuvegur íbúa. Eyjan er einstök náttúruparadís við heimskautsbaug sem laðar að sér sífellt fleiri áhugasama ferðamenn. Þörfin fyrir að þjónusta ferðafólk hefur að sama skapi aukist undanfarin ár, meðal annars vegna fjölgunar á komum skemmtiferðaskipa. Inniviðir eyjunnar eru þó takmarkaðir og samfélagið í Grímsey viðkvæmt þar sem íbúum hefur fækkað samhliða dvínandi atvinnumöguleikum.

Á Íslandi hafa smærri eyjasamfélög í kringum landið lítið verið rannsökuð. Markmið verkefnisins er að rannsaka eðli og áhrif ferðaþjónustu í Grímsey og í framhaldi af því, vinna stefnumótun og aðgerðaráætlun fyrir ferðaþjónustu í eyjunni, í anda ábyrgrar stýringar ferðamála. Í þróun ábyrgrar ferðaþjónustu er áhersla á það hvernig einstaklingar og hópar bregðast við og takast á við þau sjálfbærni verkefni sem staðið er frammi fyrir á hverjum stað. Vinna að verkefninu verður í takt við þá framtíðarsýn og starfsmarkmið sem þegar hefur verið unnin með íbúum í gegnum byggðaþróunarverkefnið Glæðum Grímsey.

Rannsókninni er ætlað að afla þekkingar á sviði eyjafræða, byggða- og ferðamálafræða, auk þess sem það mun hafa áhrif á nærumhverfi með því að vinna að uppbyggingu og atvinnusköpun í íslensku eyjasamfélagi. Verkefnisstjóri er Laufey Haraldsdóttir lektor í Ferðamáladeild Háskólans á Hólum og samstarfsaðilar eru, auk ferðaþjónustuaðila í Grímsey, verkefnið Glæðum Grímsey og Rannsóknarmiðstöð ferðamála á Akureyri. Þetta fjölþætta samstarf mun hafa samlegðaráhrif til þekkingarsköpunar og styrkingar byggðar í Grímsey með auknum búsetu- og atvinnumöguleikum á forsendum íbúa og náttúru eyjunnar.

            

T.v. verkefnisstjóri í Grímsey ásamt Kolbeini Maron syni sínum og Grímsey séð úr flugvél. Myndir: Laufey Haraldsdóttir.