Bridges verkefnið á Forum on Vocational Excellence 2024

Fulltrúar frá Háskólanum á Hólum og Háskólanum á Akureyri voru á dögunum staddir í Lyon í Frakklandi, ásamt samstarfsskólum frá hinum norðurlöndunum, til að kynna Evrópusamstarfsverkefnið Bridges á ráðstefnunni Forum on Vocational Excellence 2024.

Ráðstefnan er árlegur vettvangur þeirra verkefna innan menntaáætlunar Evrópusambandsins, sem heyra undir Miðstöðvar Framúrskarandi Verkmenntunar.

Bridges verkefnið er samstarfsverkefni skólastofnana og fyrirtækja í fiskeldisiðnaði á Norðurlöndunum, um eflingu og samræmingu náms í fiskeldi, og var það meðal þeirra verkefna sem valin voru til sérstakrar kynningar á ráðstefnunni í ár.

Ráðstefnan var að þessu sinni haldin samhliða World Skills 2024 sem er heimsmeistaramót iðngreina og voru því alls á annað þúsund manns frá 70 þjóðlöndum sem tóku þátt í viðburðinum. Emmanuel Macron Frakklandsforseti opnaði heimsleikana en Nicole Belloubet ráðherra alþjóðamenntunar setti ráðstefnuna. Í ræðu sinni fjallaði hún meðal annars um hve vegur og virðing starfsmenntunar er að aukast í Evrópu og mikilvægi þess að styðja við, og hafa virkt samstarfsnet utan um þær menntastofnanir sem slíku námi sinna.