Árleg reiðsýning verðandi útskriftarnema

Laugardaginn 20.maí var stór dagur hjá þriðja ári nemenda í hestafræðideildinni. Þá var árleg reiðsýning verðandi útskriftarnema auk þess sem verðlaunaafhending fór fram og nemendurnir klæddust hinum bláu FT-jökkum.

Sýningin tókst vel og nemendurnir sem sjálfir sáu um skipulagningu og undirbúning hennar stóðu sig með prýði. Þeir riðu um á bæði skólahestum og hestum á eigin vegum sem þeir hafa haft í náminu og var verulega gaman að fylgjast með.

Að lokinni sýningu var stór stund þegar hver og einn nemandi gekk fram og klæddist bláum FT-jakka. Þá voru tvenns konar verðlaun veitt. FT-skjöldurinn og Morgunblaðshnakkurin. FT-skjöldurinn er veittur fyrir hæstu einkunn lokaverkefnis í reiðmennsku. Að þessu sinni voru tveir nemendur jafnir og voru því tveir FT-skildir afhentir. Það voru þau Thelma Dögg Tómasdóttir og Arnar Máni Sigurjónsson sem voru hlutskörpust og hnífjöfn að stigum fyrir verkefni sín. Þórarinn Eymundsson, varaformaður FT afhenti verðlaunin.

Morgunblaðshnakkinn hlýtur sá nemandi sem stendur efstur í verklegum áföngum brautarinnar yfir öll árin og er þar vegið meðaltal áfanganna sem reiknast. Arnar Máni Sigurjónsson stóð efstur með einkunnina 9,29 og Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu veitti honum verðskulduð verðlaunin.

Nemendur stilltu sér upp til myndatöku, bæði á vellinum og við kirkjuna með skólahúsið í baksýn áður en þeir mættu með aðstandendum sínum til kaffisamsætis. Formleg útskrift verður svo 7.júní nk. þegar nemendur allra brauta Háskólans á Hólum útskrifast. Engu að síður stór dagur sl.laugardagur í huga hestafræðinemanna. Til hamingju með þenna stóra áfanga, útskriftarnemendur þriðja árs!

 

Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður hjá Mbl.tók myndirnar