Angelo Telatin með fræðsludaga á Hólum

Dagana 5.-7. desember voru haldnir fræðslu- og endurmenntunardagar á Hólum. Reiðkennarinn og knapinn Angelo Telatin kom heim að Hólum og var með fjölbreytta fræðslu í reiðmennsku, tamningum og reiðkennslu. Angelo er Ítali en býr í Bandaríkjunum og er prófessor við Delaware Valley University en auk þess kennir hann víða um heim og m.a. reglulega við sænska reiðskólann í Wången. Angelo er búinn að koma víða við en hefur lagt áherslu á atferlis-, kennslu -og sálfræði samhliða reiðmennsku og þjálfun. Hann segir sjálfur að smám saman hafi hann áttað sig á að fræðin og reiðmennskan mætti oft á tíðum tengjast betur saman. Angelo hefur því einbeitt sér að því að tengja betur saman vitsmunalega getu hesta til að læra við þjálfunaraðferðir og reiðmennsku. Þessi nálgun var rauði þráðurinn í fræðslu hans og boðskap bæði niðri á reiðhallargólfinu í reiðkennslu og í fyrirlestrarsalnum.

Fimmtudagurinn byrjaði á því að A-landsliðshópur Íslands í hestaíþróttum kom í Hóla þar sem reiðkennararnir Þórarinn og Mette byrjuðu daginn á sýnikennslu á meðan beðið var eftir Angelo en hann lenti í Keflavík snemma um morguninn. Eftir hádegi tók svo Angelo við og hélt skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur þar sem hann blandaði saman myndböndum, verklegum æfingum og útskýringum. Seinnipartinn var haldið áfram í reiðhöllinni þar sem hann fékk til sín þrjú ólík viðfangsefni í þremur ólíkum hestum. Sérstaklega gaman var að fylgjast með hvernig hann vandi viðkvæman hest við klapp frá áhorfendum á stuttum tíma. Að loknum góðum degi kvöddum við landsliðið hlökkuðum til næsta dags.

Föstudagurinn byrjaði með að reiðkennarar Hólaskóla fengu einkakennslu með Angelo og þann dag hafði stafsfólk hestafræðideildarinnar meistarann út af fyrir sig. Með því móti gat hver og einn kennari farið á dýptina í eigin reiðmennsku og pælingum með Angelo. Þennan dag var líka skilasýning 2. árs nemenda á frumtamningatryppunum. Angelo var boðið að fylgjast með seinni hluta þeirra sýningar ekki síst til að fá hann til að leggja sitt mat á tamningakennsluna við skólann. Eftir sýninguna funduðu kennarar skólans með Angelo þar sem gafst tækifæri á að gagnrýna nemendur og kennsluna við skólann og ekki síst spyrja spurninga um hitt og þetta tengt reiðmennsku og kennslu. Skemmst er frá að segja að varðandi sýninguna á frumtamningatryppunum var Angelo stór hrifinn af því sem hann sá og bar mikið lof á nemendur. Jafnframt benti hann á atriði sem betur mætti fara, því glöggt er gests augað.

Á laugardeginum hélt dagskráin áfram í Þráarhöllinni þar sem öllum nemendum og starfsfólki skólans var boðið, fyrverandi nemendum og einnig félagsmönnum í Félagi tamningamanna. Þar mættu nokkrir nemendur með sín hross og fengu reiðkennslu hjá Angelo sem nýtti hvert tækifæri til að miðla til allra áhorfenda hvernig hestar hugsa og læra best samkvæmt nýjustu rannsóknum og vitneskju. Dagurinn tókst mjög vel til og mæting nokkuð góð þó einhverjir forfölluðust vegna veðurs.

Það er ómetanlegt fyrir þróun kennarana og námsins að fá slíka sérfærðinga hér heim að Hólum.

Hólaskóli þakkar öllum sem komu að undirbúningi og framkvæmd þessara daga en sérstakar þakkir fær Mette Mannseth sem sá um hitann og þungan af skipulagningunni.

 

Fyrirhöndhestafræðideildar

Þórarinn Eymundsson