Hestafræðideild

Markmið Hestafræðideildar er að veita fagmenntun á sviði reiðmennsku, reiðkennslu, tamninga, og hestahalds og að vinna að þróun og nýsköpun þekkingar, á öllum sviðum er varða íslenska hestinn, með rannsóknum. Með þessum hætti verði stuðlað að aukinni arðsemi í atvinnugreininni, útbreiðslu hestamennskunnar og velferð hestanna. Deildin er opinber miðstöð menntunar og rannsókna á sviði hestamennsku, tamninga, reiðmennsku og reiðkennslu á Íslandi. Deildin þjónar Íslandshestamennskunni um allan heim og nemendahópurinn er alþjóðlegur.
Námið í Hestafræðideild er fjölbreytt að viðfangi og aðferðum þar sem bókleg og verkleg kennsla er samþætt, kennslan byggist á fyrirlestrum og lestri fagefnis. Í náminu er lögð mikil áhersla á verklega þjálfun í formi einkakennslu, hópkennslu og sýnikennslu. Samhliða námsleiðinni BS í reiðmennsku og reiðkennslu er boðið upp á þá möguleika að útskrifast með diplómu að loknu einu námsári (leiðbeinendapróf) eða tveimur (tamningapróf). Jafnframt er boðið uppá meistaranám í hestafræðum við deildina þar sem áherslan er á rannsóknarnám með sterkan fræðilegan bakgrunn.
Deildarstjóri Hestafræðideildar er Sigríður Bjarnadóttir.

Aðgangsviðmið fyrir Hestafræðideild

Námsleiðir:

Inntökupróf/inntökuskilyrði
Auk inntökuprófs í reiðmennsku þurfa umsækjendur um nám í Hestafræðideild að skila inn myndbandi af sér á hestbaki - sjá ítarlegri upplýsingar. Haft verður samband við þá umsækjendur sem teljast uppfylla skilyrði til að verða boðið í inntökupróf í reiðmennsku. Prófin verða haldin í lok maí og/eða fyrri hluta júní. Umsækjendur eru hvattir til að sækja um sem fyrst.
Erlendir umsækjendur (umsækjendur með erlent móðurmál) í Hestafræðideild þurfa ennfremur að þreyta inntökupróf í íslensku. Þar er fyrst og fremst verið að kanna skilning á töluðu máli. Nánari upplýsingar eru einnig veittar á kennsluskrifstofu kennsla@holar.is.
Búnaður nemenda
Nýnemum í Hestafræðideild er bent á að kynna sér búnaðarlista.
Nemendur í Hestafræðideild eru hvattir að tryggja sig og sína hesta áður en kennsla hefst.
Skólinn tekur enga ábyrgð á nemendahestunum.

Skipulag skólastarfsins:
Kennsla haustannar hefst að jafnaði með nýnemadögum heima á Hólum.