Úthlutanir úr Rannsóknasjóði | Háskólinn á Hólum

Úthlutanir úr Rannsóknasjóði

Stjórn Rannsóknasjóðs hefur lokið við úthlutun til nýrra rannsókna­verkefna fyrir árið 2019. Alls bárust 359 gildar umsóknir í Rannsóknasjóð að þessu sinni og var 61 þeirra styrkt eða um 17%.

Sem endranær var sótt um styrki til nokkurra verkefna á vegum Háskólans á Hólum, og verður árangurinn að teljast allgóður, þar sem fast að helmingi umsókna frá skólanum hlaut brautargengi. Rétt er þó að taka fram að flest verkefnanna eru unnin í samstarfi tveggja stofnana eða fleiri.

Alls bárust 28 umsóknir um „öndvegisstyrki“ og hlutu þrjú þessara verkefna styrkloforð, alls að upphæð kr. 138,5 milljónir króna. Um öndvegisstyrki segir svo, á vef Rannís: „Öndvegisstyrkir eru ætlaðir til umfangsmikilla rannsóknarverkefna sem eru líkleg til að skila íslenskum rannsóknum í fremstu röð á alþjóðavettvangi. Öndvegisstyrkir eru ætlaðir rannsóknarhópum og gert er ráð fyrir að auk eins eða fleiri verkefnisstjóra séu einnig meðumsækjendur og aðrir þátttakendur á slíkum umsóknum. Gert er ráð fyrir þjálfun ungra vísindamanna í öndvegisverkefnum með þátttöku framhaldsnema og/eða nýdoktora. Staðfest samstarf við erlenda vísindamenn og stofnanir styrkir umsóknina.  Öndvegisstyrkir eru veittir í allt að 36 mánuði. Styrkupphæð til verkefnis getur að hámarki verið 120 milljónir króna fyrir 36 mánaða verkefni, 80 milljónir fyrir 24 mánaða verkefni og 40 milljónir fyrir 12 mánaða verkefni. Styrkurinn úr Rannsóknasjóði nemur að hámarki 85% af kostnaði verkefnis.“

Hæsti öndvegisstyrkurinn að þessu sinni, kr. 51 milljón, kemur í hlut verkefnis sem dr. Bjarni Kristófer Kristjánsson, deildarstjóri og prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum leiðir. Yfirskrift þess er Samþætting vist-, þróunar- og þroskunarfræðilegra þátta til mótunar á líffræðilegri fjölbreytni: Hornsíli í Mývatni sem líkan.

Verkefnisstyrkir eru heldur smærri í sniðum. Um þá segir, á vef Rannís: „Styrkupphæð til verkefnis getur að hámarki verið 45 milljónir króna fyrir 36 mánaða verkefni, 30 milljónir fyrir 24 mánaða verkefni og 15 milljónir fyrir 12 mánaða verkefni. Styrkurinn úr Rannsóknasjóði nemur að hámarki 85% af heildarkostnaði verkefnis“. 

Alls bárust 198 umsóknir um verkefnisstyrki, og hlaut 31 verkefni styrk, þar af tvö sem leidd eru af starfsmönnum Háskólans á Hólum. Annars vegar Þróun vitsmuna: Rannsókn á samsvæða afbrigðum bleikju (Salvelinus alpinus), sem stýrt er af dr. David Roger Ben Haim, dósent við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild og hins vegar Þróun og stjórn litabreytileika sjávarsnigilsins (Buccinum undatum), en það leiðir dr. Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor skólans.

Eins og áður sagði eru rannsóknarverkefni gjarna unnin í samstarfi nokkurra stofnana og koma starfsmenn skólans að fleiri að þeim verkefnum, sem hlutu styrki að þessu sinni.

Nánar má lesa um úthlutunina hér á vef Rannís.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is