Stuðningsyfirlýsing um háskóla- og rannsóknasamstarf í kjölfar Brexit | Háskólinn á Hólum

Stuðningsyfirlýsing um háskóla- og rannsóknasamstarf í kjölfar Brexit

Fulltrúar samtaka og nefnda háskóla, vísindastofnana og rektora í Evrópu hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir sameiginlegum vilja til áframhaldandi öflugs samstarfs við breska háskóla í kjölfar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu (e. Brexit). Meðal þeirra sem koma að yfirlýsingunni er samstarfsnefnd háskólastigsins á Íslandi.
 
Bretar gengu formlega úr Evrópusambandinu föstudaginn 31. janúar sl. Við tekur aðlögunartímabil fyrir bæði Breta og sambandið sem stendur til loka þessa árs og verður Bretland áfram aðili að bæði Erasmus+ og Horizon 2020 rannsóknar- og vísindaáætlunum Evrópusambandsins á þeim tíma. Þar að auki mun útgangan ekki hafa nein áhrif á þau samstarfsverkefni breskra og evrópskra háskóla á vettvangi ESB sem þegar eru hafin og standa lengur en til áramóta. 
 
Bretar og Evrópusambandið þurfa hins vegar að semja um það hvað tekur við þegar aðlögunartímabilinu lýkur 31. desember 2020, þar á meðal á sviði vísinda og rannsókna. Í yfirlýsingu 36 samtaka og nefnda háskóla, vísindastofnana og rektora í Evrópu, sem send var út á föstudag, eru stjórnvöld í Bretlandi og Evrópusambandsríkjunum hvött til að vinna hratt að nýju samkomulagi á þessum sviðum þannig að tryggja megi samfellu í samstarfi breskra háskóla við háskóla annars staðar í Evrópu. Slíkt samkomulag gagnist báðum aðilum og „ætti að liggja fyrir í lok árs 2020 og tryggja þannig þróun skapandi og sterks sambands til næstu áratuga,“ eins og segir í yfirlýsingunni.
 
Íslendingar eiga aðild að áðurnefndum rannsóknaráætlunum í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Því ritaði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undir yfirlýsinguna sem formaður samstarfsnefndar háskólastigsins, samráðsvettvangs háskólarektora á Íslandi.
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is