Stjórn Rannsóknamiðstöðvar ferðamála fundar á Hólum | Háskólinn á Hólum

Stjórn Rannsóknamiðstöðvar ferðamála fundar á Hólum

Aðalfundur stjórnar Rannsóknamiðstöðvar ferðamála (RMF) var haldin að Hólum þann 13. mars s.l. RMF er starfrækt af  Háskólanum á Hólum, Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands. Auk fulltrúa frá skólunum þremur sitja í stjórn fulltrúar frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu.
 
Í stjórn sitja, Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnar og Rannveig Ólafsdóttir f.h. Háskóla Íslands, Jón Þorvaldur Heiðarsson og Sigrún Stefánsdóttir f.h. Háskólans á Akureyri, Laufey Haraldsdóttir f.h. Háskólans á Hólum, Oddný Þóra Óladóttir f.h. Ferðamálastofu og Bjarnheiður Hallsdóttir f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar. Auk stjórnar sátu fundinn framkvæmdastjóri miðstöðvarinnar, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir og fjórir af fimm öðrum starfsmönnum hennar, þær Eyrún Jenný Bjarnadóttir, Þórný Barðadóttir, Auður H. Ingólfsdóttir og Íris Hrund Halldórsdóttir.
 
Erla Björk Örnólfsdóttir rektor ávarpaði fundinn, kynnti starfsemi Háskólans á Hólum og framtíðarsýn á tengsl Háskólans á Hólum við RMF, sem og samstarf háskólanna þriggja á þessum vettvangi.
 
Að loknum hefðbundnum fundarstörfum og fróðleik um starfsemi RMF sem starfsfólk miðstöðvarinnar kynnti, voru markmið rannsóknastefnu RMF rædd og skerpt á áherslum hennar. Þá kynnti Oddný Þóra Óladóttir hjá Ferðamálastofu og fulltrúi í stjórn RMF meistararitgerð sína um opinbera stefnumótun í ferðamálum, þar sem hún varpar ljósi á hvað hefur einkennt stefnumörkun stjórnvalda í málefnum ferðaþjónustunnar á tímabilinu 1990-2015 hvað varðar rannsóknir og tölfræðilega gagnasöfnun. Niðurstaða hennar er að lítið hefur breyst í stefnumörkunum ferðaþjónustunnar á þessu tímabili, þrátt fyrir gríðarlegan vöxt í ferðaþjónustu í landinu.
 
Miklar umræður urðu í kjölfar kynningar Oddnýjar Þóru um þá brýnu þörf sem er á aukinni gagnaöflun og rannsóknum í ferðamálum á Íslandi. Ljóst er að nauðsynlegt er að hlúð verði að þessum þáttum með líkum hætti og gert hefur verið hjá öðrum grunnatvinnugreinum þjóðarinnar.
 
Að loknum góðum vinnudegi fóru fundargestir hver til síns heima og Hjaltadalurinn kvaddi sólríkur og fjallafagur.
 
Laufey Haraldsdóttir
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is