Samstarf við Háskólann í Suðaustur-Noregi | Háskólinn á Hólum

Samstarf við Háskólann í Suðaustur-Noregi

Háskólinn á Hólum starfar í alþjóðlegu umhverfi og eiga deildir skólans samstarf við ýmsa erlenda háskóla og rannsóknastofnanir. Undanfarin misseri hefur skólinn verið að styrkja samstarf sitt við Háskólann í Suðaustur-Noregi, einkum starfsstöð hans í Bø á Þelamörk. Lýtur samstarfið annars vegar að þróun námsleiða og hins vegar að rannsóknum, og  taka bæði Ferðamáladeild og Fiskeldis- og fiskalíffræðideild þátt í því.
 
Laufey Haraldsdóttir deildarstjóri Ferðamáladeildar heimsótti Bø í nýliðinni viku þar sem hún vann að verkefni um loftslagsbreytingar, ferðaþjónustu og matfiskinn bleikju. Um er að ræða þverfaglegt verkefni sem Guðrúnu Helgadóttur leiðir, en hún er prófessor við háskólanna báða. Helgi Thorarensen prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum kemur einnig að því. Auk þeirra tekur sérfræðingur í loftslagsmálum við háskólann í Bø þátt í verkefninu, sem og tveir doktorsnemendur þaðan. 
 
Meðan á dvölinni ytra stóð hélt Laufey erindi fyrir nemendur sem stunda nám í alþjóðlegri markaðssetningu. Erindið  kallaði hún „Iceland´s Tourism Boom“ og þar ræddi hún við nemendur um markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands, mögulega áhrifavalda í gegnum árin og breyttar áherslur allra síðustu ár. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is