Samstarf Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum og Svæðisgarðsins Snæfellsness | Háskólinn á Hólum

Samstarf Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum og Svæðisgarðsins Snæfellsness

Kjartan Bollason, lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum er í samstarfi við Svæðisgarðinn  Snæfellsnes út árið 2019. Samstarfið felur m.a. í sér gerð umhverfisstefnu fyrir Gestastofu Snæfellsness sem verið er að útbúa í félagsheimilinu Breiðabliki, hönnun á strandleið um Snæfellsnes, þátttöku og  kennslu á námssmiðjum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á Snæfellsnesi um útfærslu og hönnun á upplifun í náttúru Snæfellsness í sátt við samfélagið. Hluti af samstarfinu felur í sér að útbúa og þróa raunhæf verkefni fyrir nemendur í námskeiðum og verknámi við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum. 
 
Samstarfið er hluti af alþjóðlega verkefninu SHAPE sem Svæðisgarðurinn Snæfellsnes er þátttakandi í og stendur fyrir samvinnu um náttúru og menningararf og sjálfbæra ferðaþjónustu á Norðurslóðum, sjá nánar hér á vef Svæðisgarðsins. Markmiðið er að efla samstarf fyrirtækja í ferðaþjónustu og annarri starfsemi á Snæfellsnesi. Samfélagið á Snæfellsnesi hefur hlotið alþjóðlega umhverfisvottun í 10 ár (www.nesvottun.is) og í gegn um þann farveg til samstarfs sem Snæfellingar hafa búið sér til hefur náðst góður árangur og ríkur vilji er til að gera enn betur.  
 
Kjartan mun, fyrir hönd Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum, vinna með Svæðisgarðinum að rýni í hvernig hönnun ferðavöru á áfangastað verður til, draga saman og útbúa góð raundæmi sem læra má af, hanna og framkvæma lærdómsferðir til Snæfellsness fyrir erlenda samstarfsaðili í SHAPE verkefni og draga saman nýjustu upplýsingar og rannsóknir sem tengjast ofangreindu. 
 
 
Kjartan Bollason
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is