Rannsóknir á beitukóngi | Háskólinn á Hólum

Rannsóknir á beitukóngi

Erla Björk Örnólfsdóttir, Snæbjörn Pálsson, Zophonías Oddur Jónsson, Jake Dylan Goodall og Hildur Magnúsdóttir hlutu, eins og áður er getið, styrk úr Rannsóknasjóði í upphafi árs. Rannsókn þeirra nefnist: Þróun og stjórn litabreytileika sjávarsnigilsins Buccinum undatum og er til næstu þriggja ára. Verkefnið byggir á fyrri rannsóknum teymisins (sem starfar við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands) á beitukóngi og spannar útbreiðslu tegundarinnar frá Bretlandi, norður og vestur um Atlantshaf til Kanada.
 
Nánar:
Aðgreining á orsökum svipfarsbreytileika vegna umhverfis- eða erfðaþátta er mikilvæg fyrir rannsóknir í þróunarfræði. Breytileiki í skeljum lindýra hefur gegnt mikilvægu hlutverki í rannsóknum á svipfarsbreytileika, þó að mestu hafi þær verið bundnar við tegundir á landi eða í fjöru, en lítt á tegundum neðan fjöru. Beitukóngur, Buccinum undatum, í Breiðafirði er þekktur fyrir mikinn litabreytileika miðað við stofna frá öðrum svæðum í N-Atlantshafi. Markmið verkefnisins er meðal annars að greina ítarlega erfðir að baki litafjölbreytni beitukónga, á Íslandi og austan og vestan hafs. Ítarleg gögn yfir erfða- og umritunarmengi tegundarinnar verða greind og uppruni litabreytileika rakinn, stofngerð tegundarinnar greind og möguleg merki um náttúrulegt val á mismunandi landfræðilegum skölum metinn, þ.e. innan Breiðafjarðar, innan Íslands og milli svæða í N-Atlantshafi. Ennfremur verður erfðamengi tegundarinnar kortlagt sem bætir greiningu á litabreytileikanum en nýtist jafnframt í rannsóknum á þróun lindýra. Afrakstur verkefnisins mun stuðla að því að beitukóngur verði líkan lífvera fyrir lindýr sem lifa neðan fjöru.
 
Á dögunum var fyrsti undirbúningsfundur verkefnisins haldinn að Hólum og var hjálögð mynd tekin af því tilefni. 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is