Rannsóknadagur Háskólans á Hólum | Háskólinn á Hólum

Rannsóknadagur Háskólans á Hólum

Rannsóknadagur Háskólans á Hólum var haldinn heima á Hólum í gær, og tóku um 30 manns þátt í honum. Það er rannsóknasvið skólans sem stendur fyrir þessum árlega viðburði, og er tilgangurinn að skapa sameiginlegan vettvang starfsmanna allra deilda skólans, til að bera saman bækur sínar og kynna og ræða rannsóknastefnu skólans alls, sem og einstakra deilda. Rannsóknadagurinn  nýtist þó ekki síst  til að akademískir starfsmenn skólans fái nasasjón af starfinu í öðrum deildum skólans en sinni eigin, og er athyglisvert að þrátt fyrir að deildirnar þrjár virðist um flest ólíkar, þá eiga þær eigi að síður margt sameiginlegt, ekki síst á sviði rannsókna.
 
Skúli Skúlason, sviðsstjóri  rannsóknasviðs, stýrði málfundinum og hóf hann með stuttu innleggi um tilgang og mikilvægi rannsókna innan skólans  og ýmsa þætti tengda þeim. Meðal annars ræddi hann um rannsóknarstefnu skólans almennt; til hvers og fyrir hvern hún væri. Í máli Skúla kom fram að þörf væri á að koma rannsóknunum betur á framfæri úti í samfélaginu. Aukin áhersla stjórnvalda er nú á mat á gæðum rannsókna, og spurningunni um hvernig unnt sé að meta samfélagsleg gæði rannsókna var varpað fram.
 
Að inngangsaorðum Skúla loknum var komið að kynningum frá einstökum deildum. Bjarni Kristófer Kristjánsson, deildarstjóri Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar, reið á vaðið og flutti stutt yfirlit um rannsóknarstefnu deildarinnar, en hún er komin einna lengst allra deilda skólans hvað þetta varðar og hefur rannsóknastefnan sannað sig sem mikilvægur stuðningur við rannsóknastarfið innan deildarinnar.  Bjarni varpaði síðan boltanum til þriggja af starfsmönnum deildarinnar: Einar Svavarsson fjallaði um starfið í bleikjukynbótastöðinni; framgang kynbótanna og mat á erfðaframförum. Helgi Thorarensen ræddi um áhrif loftslagsbreytinga á nýliðun og líf bleikju. Þar voru lykilatriðin hitastig vatnsins og efnaskiptahraði og hitaþol hjá bleikju. Loks flutti Ólafur Sigurgeirsson tiltölulega stutt erindi um fóðurnotkun í fiskeldi, fyrst og fremst m.t.t. vaxandi mannfjölda á heimsvísu og nauðsyn þess að nýta næringarefni sem á sem skilvirkastan hátt.
 
Þá var komið að Ferðamáladeild. Laufey Haraldsdóttir deildarstjóri ræddi um rannsóknastefnu deildarinnar, sem unnið er að. Þar er byggt á stefnu skólans alls og með hliðsjón af því sem gert hefur verið innan Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar, en einnig með áherslu á aukin tengsl við atvinnugreinina. Laufey sagði frá mánaðarlegum fundum innan deildarinnar, þar sem akademískir starfsmenn hennar hittast og segja frá sínum rannsóknum. Síðan tók Ingibjörg Sigurðardóttir við, og flutti hún yfirlit yfir rannsóknir í Ferðamáladeild, en þær eru af ýmsum toga. Sérstaklega nefndi hún rannsóknir á hestatengdri ferðaþjónustu og annað tengt hestum, og vakti athygli á annars augljósri tengingu við Hestafræðideild.  Guðrún Helgadóttir sagði svo frá þverfaglegu samstarfsverkefni tveggja deilda skólans (Ferðamáladeildar og Fiskeldis- og fiskalíffræðideldar) við háskólann í Suðaustur-Noregi, og helstu áskorunum sem fylgja því að sérfræðingar af ólíkum sviðum koma að sama borði.
 
Sveinn Ragnarsson, deildarsjóri Hestafræðideildar, hóf mál sitt á svipuðum nótum og Laufey, varðandi rannsóknarstefnu sinnar deildar, sem líkt og hjá Ferðamáladeild er í mótun og byggir á sömu grunnstoðum. Hann gaf síðan yfirlit um rannsóknavirkni í deildinni. Að lokum kom hann sérstaklega inn á nemendaverkefni í BS-námi og skýrði frá birtingum á þeim. Guðrún Stefánsdóttir fjallaði um rannsókn á áhrifum líkamsástands hrossa á efnaskipti, getu, endurheimt eftir álag og hreyfingu. Loks sté Víkingur Gunnarsson í pontu og sagði frá rannsóknarverkefni sem snýst um mælingar á hreyfingum hesta, og lýsti framkvæmd og tilgangi verkefnisins. Inntakið er gæði gangtegunda, einkum hjá alhliða hestum.
 
Boðið var upp á spurningar og svör á eftir hverri tölu, og enn fremur undir lok formlegrar dagskrár, sem Skúli rak smiðshöggið á með því að skilja málstofugesti eftir með vangaveltur um flækjustig veraldarinnar.
 
Málstofan fór öll fram á ensku, enda allmargir akademískir starfsmenn skólans af erlendum uppruna, auk þess sem  nokkrir erlendir rannsóknaverknemar voru mættir til að hlýða á erindin og er ekki að efa að þeir munu bera hróður skólans víða. 
 
Að málstofunni lokinni bauð Starfsmannafélag Hólaskóla til grillveislu þar sem viðstaddir nutu langþráðrar veðurblíðu, jafnframt því að halda umræðunum áfram. Hvort flækjustigið hefur eitthvað minnkað við það, skal ósagt látið.
 
Byggt á minnispunktum Ólafs Sigurgeirssonar.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is