Rannsókn um tungumál í ferðaþjónustu | Háskólinn á Hólum

Rannsókn um tungumál í ferðaþjónustu

Anna Vilborg Einarsdóttir, lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum, kynnti frumniðurstöður rannsóknar um tungumál í ferðaþjónustu á Málræktarþingi Íslenskrar málnefndar sem haldið var laugardaginn 26. september sl. Anna Vilborg og Sigríður Sigurðardóttir, einnig kennari við Ferðamáladeild, stýra rannsókninni ásamt Ágústu Þorbergsdóttur, starfsmanni Íslenskrar málnefndar.
 
Á þinginu var kynnt ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu. Sigríður Sigurjónsdóttir fjallaði um viðhorf Íslendinga til íslensku á tímum stafræns málsambýlis við ensku, Finnur Friðriksson talaði um íslensku með augum kennara og nemenda og Kelsy Hopkins kynnti athugun á almennri umræðu um málvöndun í Fésbókarhópnum „Málvöndunarþátturinn“.
 
Rannsókn um tungumál í ferðaþjónustu hófst í sumar og er unnin á vegum Ferðamáladeildar HH og Íslenskrar málnefndar / Stofnunar Árna Magnússonar. Tekin voru viðtöl við fólk í ferðaþjónustu, bæði sunnan lands og norðan, sem gengu út á að kanna stöðu íslensku í markaðssetningu og móttöku gesta, m.m. Sömuleiðis voru rafrænir spurningalistar sendir ferðaþjónustufyrirtækjum sem bera erlend heiti og spurt um stöðu íslensku gagnvart öðrum tungumálum í ferðaþjónustu á vegum fyrirtækjanna. 
 
Sigríður Sigurðardóttir og Anna Vilborg Einarsdóttir
 
Myndatexti: Samhliða rannsókninni var safnað myndum af auglýsingaskiltum með enskum textum frá ferðþjónustuaðilum, sem hægt er að sjá meðfram vegum um allt land og þeim fjölgar stöðugt. Ljósm. Sigríður Sigurðardóttir.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is