Ráðstefna um gæði háskóla | Háskólinn á Hólum

Ráðstefna um gæði háskóla

Föstudaginn 28. ágúst sl. var haldin alþjóðleg ráðstefna í samstarfi Háskólans á Hólum og gæðaráðs íslenskra háskóla þar sem niðurstöður gæðaúttektar á starfi skólans voru kynntar og ræddar, samhliða umræðu um gæðamál íslenskra háskóla almennt og mikilvægi þeirra fyrir samfélagið. Um 90 manns sóttu ráðstefnuna sem tókst í alla staði vel. Þátttakendur komu víða að; úr háskólasamfélaginu, stjórnsýslunni, fyrirtækjum og stofunum hérlendis og erlendis.
 
Ráðstefnan var á ensku og fór fram á netinu. Dagskráin, sjá hér var fjölbreytt, hófst með sex erindum, þar sem fulltrúi gæðaráðs íslenskra háskóla, formaður úttektarhóps, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, starfsmaður, nemandi og rektor háskólans röktu reynslu og lærdóm af gæðaúttektinni og  mikilvægi þeirra. Að því loknu voru líflegar pallborðsumræður þar sem mikilvægi gæðamála og hlutverk háskóla í samfélaginu var ofarlega á baugi. Þátttakendur í pallborðinu, voru fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis, rektor Listaháskóla Íslands, fulltrúar gæðaráðs íslenskra háskóla og ráðgjafanefndar gæðaráðs, formaður úttektarhóps, sem og fulltrúar nemenda og starfsfólks háskólans.
 
Tilefni ráðstefnunnar var að fyrr á þessu ári lauk viðamikilli gæðaúttekt á Háskólanum á Hólum, á vegum gæðaráðs íslenskra háskóla. Um er að ræða aðra umferð stofnanaúttekta á íslenskum háskólum, en úttektirnar eru gerðar á sjö ára fresti, sjá nánari upplýsingar á vefsíðu gæðaráðsins: https://qef.is/quality-enhancement-framework/institution-wide-review/
 
Meginniðurstöður úttektarinnar, sem framkvæmd var af fimm manna hópi alþjóðlegra sérfræðinga, er annars vegar að úttektarhópurinn ber traust til starfshátta og getu Háskólans á Hólum til að tryggja gæði þeirra gráða sem hann veitir; og hins vegar að hópurinn ber traust til starfshátta og getu Háskólans á Hólum til að tryggja gæði þess námsumhverfis sem hann býður nemendum sínum. 
 
Úttektarhópurinn skilaði ítarlegri skýrslu um háskólann, sem aðgengileg er á slóðinni: https://qef.is/assets/PDFs/Universities/QEF2-Holar-IWR-Report-for-websit.... Í skýrslunni er lagt mat á gæði starfshátta, prófgráða, námsumhverfis og umgjarðar rannsókna, sérstaða og styrkleikar háskólans ræddir og margvísleg ráðgjöf veitt um skipulag og starfsemi hans. Skýrslan er skólanum afar gagnleg, ekki síst varðandi stefnumörkun, en nú er verið að móta stefnu hans fyrir árin 2021-2025. Stutt íslensk samantekt af úttektinni og meginniðurstöðum er aðgengileg á slóðinni: https://qef.is/assets/PDFs/Universities/Holar-IWR-Report-Icelandic-Summa....
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is