Ráðstefna að Hólum í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands | Háskólinn á Hólum

Ráðstefna að Hólum í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands

Dagana 19. og 20. apríl var haldin ráðstefna á Hólum í Hjaltadal sem bar yfirskriftina „Áhrif skólahalds á Hólum í Hjaltadal á samfélagsþróun: Frá fullveldi til framtíðar“. Markmið ráðstefnunnar var að varpa ljósi á hlutverk og áhrif skólahalds á Hólum á einstaklinga og samfélag. Ráðherra mennta- og menningarmála, Lilja Alfreðsdóttir, setti ráðstefnuna og sló tóninn fyrir umræðu ráðstefnunnar. Mál fyrirlesara einkenndist af mikilli virðingu fyrir verkum þeirra sem starfað og numið hafa við skólann, í tíð bændaskólans sem og háskólans. Vægi skólahalds í fræðilegu, svæðisbundnu og sögulegu samhengi var ótvírætt dýrmætt að mati ráðstefnugesta og ber merki fyrirhyggju, áræðni og staðfestu. Framsögur fyrrverandi nemenda gáfu jafnframt til kynna að nám við skólann veiti einstaklingum gott veganesti til eigin atvinnusköpunar, tengslanet til framtíðar og hvetji til framsækni í leik og starfi. Orka Hólastaðar umlék ráðstefnugesti í sumarbyrjun. Augljóst er að skólahald að Hólum í Hjaltadal hefur, í bráð og lengd, haft djúpstæða áhrif á íslenskt samfélag með menntun einstaklinga, víðsvegar af landinu, sem hafa brennandi áhuga á fræðasviðum sínum og sterkar taugar til skólans. Auður Háskólans á Hólum og íslensks samfélags er ærinn og framtíðin björt.
 
Á ráðstefnunni voru haldin 13 erindi auk þess sem fulltrúar 15, 25 og 50 ára afmælisárganga deildu upplifunum sínum frá námsdvölinni og lífi að loknu námi með ráðstefnugestum. Einnig var ásýnd Hóla í 100 ár gerð skil í myndasýningu Hjalta Pálssonar og teiknararnir Elín Elísabet Einarsdóttir og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir fönguðu efni ráðstefnunnar á myndrænan hátt. Að kvöldi fyrri ráðstefnudags, sumardagsins fyrsta, var hátíðarkvöldverður þar sem Gunnar Rögnvaldsson stýrði dagskrá og af því tilefni skellti hann í brag um skólastarfið. 
 
Erindi á ráðstefnunni fluttu: Jón Torfi Jónasson, Menntahugmyndir fara á flug – Hólar í upphafi 20. aldar, Jón Bjarnason, Um endurreisn Hólaskóla 1981 - Átök og hollráð að tjaldabaki, Allyson Macdonald, Gæði samfélags - geta til aðgerða, Anna Guðrún Edvardsdóttir, Þekking í þágu samfélags, Sigríður Þorgrímsdóttir, „Skólinn er hjarta samfélagsins“, Jón Eðvald Friðriksson, Háskóli í Héraði, Þórólfur Sveinsson, Hólaskóli um 1970, minningar og vangaveltur, Guðrún Stefánsdóttir, Sérhæft hestanám við Hólaskóla og mikilvægi þess fyrir Íslandshestaheiminn, Arnar Bjarki Sigurðarson, Reiðkennsla án landamæra, Áskell Heiðar Ásgeirsson, Viðburðaríkt líf eftir nám, Arnþór Gústavsson, Er skynsamlegt að nema fiskeldisfræði?, Knútur Rafn Ármann, Friðheimar - Hestar, garðyrkja og ferðaþjónusta, Svava H. Guðmundsdóttir, Þegar einar dyr lokast opnast aðrar.
 
Ráðstefnan var samstarfsverkefni Háskólans á Hólum, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Hjalta Pálssonar og var viðburðurinn styrktur af afmælisnefnd fullveldis Íslands.
 
Erla Björk Örnólfsdóttir. Myndir: Laufey Haraldsdóttir.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is