Ný rannsóknarskýrsla frá Ferðamáladeild | Háskólinn á Hólum

Ný rannsóknarskýrsla frá Ferðamáladeild

Út er komin rannóknarskýrslan Viðhorf til nytja- og minjagildis torfbygginga. Höfundur er Sigríður Sigurðardóttir og í formála að skýrslunni segir:

„Fjöldi ferðamanna sem sækir menningararfstengda afþreyingu vex með ári hverju og framboð á sögu- og menningartengdu efni að sama skapi. Ein tegund þess menningararfs sem fólk sækist eftir að skoða eru gömul hús. Þar með talin eru torfhús sem eru táknrænn íslenskur byggingararfur en möguleikar til að skoða þann arf eru takmörkum háðir. Nokkrir stórir torfbæir í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands eru opnir fyrir gesti til skoðunar og nokkrar torfbyggingar af öðru tagi.

Fleiri torfhús frá liðinni tíð standa enn og hægt væri að gera við þau eða hafa til hliðsjónar við endurgerð, ef áhugi væri fyrir því. Gamlar torfbyggingar eru „sögulegar menningarminjar“, sem vitna um verk- og siðmenningu kynslóðanna sem á undan okkur gengu og þróun bygginga. Því fleiri sem hverfa því dýrmætari verða þær sem eftir standa.
 
Til þess að viðhalda torfbyggingum þarf að kunna að byggja þær. Sú kunnátta byggist á sérhæfðu handverki og fyrr en varir þarf að skoða hvernig hægt verður að halda handverkinu við. Kominn er tími til að kanna hvernig hús úr torfi nýtast í þágu ferðaþjónustunnar og hver viðhorf ferðamanna og heimamanna eru til þeirra. Sömuleiðis hvaða möguleika og tilgang fólk sér í þeim. Þessari rannsókn er ætlað að svara því og að leiða í ljós hvernig ferðamenn og landsmenn meta þennan menningararf, hvaða sess hann hefur í huga þeirra.
 
Ferðamáladeild Háskólans á Hólum stendur fyrir rannsókninni. Samstarfasaðilar eru: Þjóðminjasafn Íslands, Minjastofnun Íslands, Byggðasafn Skagfirðinga og Rannsóknamiðstöð ferðamála.
 
Styrkur frá Byggðarannsóknarsjóði Byggðastofnunar gerði rannsóknina mögulega og er hér með sérstaklega þakkað fyrir hann.“
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is