Ný grein um klasaþróun í hestamennsku á Norðurlandi vestra | Háskólinn á Hólum

Ný grein um klasaþróun í hestamennsku á Norðurlandi vestra

Á vef tímaritsins Scandinavian Journal of Hospitality and Tourism hefur nú verið birt ný grein um þróun klasa í ferðaþjónustu þar sem hestamennska á Norðurlandi vestra er notuð sem dæmi. Höfundar greinarinnar eru Ingibjörg Sigurðardóttir lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum og Runólfur Smári Steinþórsson prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Greinin ber heitið Development of micro-clusters in tourism: a case of equestrian tourism in northwest Iceland, og mun hún koma út á prenti síðar í haust. 
 
Í greininni er rýnt í samsetningu og eðli hestamennsku sem atvinnugreinar á Norðurlandi vestra. Skoðað er hvers konar hestatengd fyrirtæki er þar að finna og hvernig ólík fyrirtæki sem tengjast hestamennsku með einum eða öðrum hætti hafa hag af því að vera staðsett á svipuðum slóðum og önnur fyrirtæki í sömu eða tengdri starfsemi. Á Norðurlandi vestra er að finna fyrirtæki í hestamennsku í öllum þrepum virðiskeðjunnar, allt frá frumframleiðslu til sérhæfðrar þjónustu. Í mörgum tilfellum eru fyrirtækin tiltölulega smá og nátengd lífstíl eigenda sinna. Þættir eins og þekkingarsköpun og menntun á svæðinu virðast hafa afgerandi áhrif á þróun og nýsköpun innan hestamennskunnar. Niðurstöður rannsóknarinnar benda jafnframt til þess að skilgreina megi hestamennsku á Norðurlandi vestra sem smáklasa (micro-cluster) sem er einkennandi fyrir klasaþróun á dreifbýlum svæðum. Vísbendingar eru um að samstarf fyrirtækja innan hestamennsku og við tengdar atvinnugreinar geti skapað tækifæri í markaðssetningu og nýsköpun sem síðan getur leitt til fjölgunar starfa og jákvæðrar þróunar byggðar. Rannsóknin bendir til að þróun umrædds klasa sé líkleg til að styrkja hestamennsku sem atvinnugrein á Norðurlandi vestra og efla samkeppnishæfni hennar.
 
Rannsóknin sem greinin byggir á var styrkt af Vaxtarsamningi Norðurland vestra. Tengd grein þar sem fjallað var um klasaframtakið Hýruspor, upphaf þess og endalok, kom jafnframt út fyrr á árinu. Þeim sem hafa áhuga á að lesa þessar greinar er bent á að senda póst á netfangið inga@holar.is til að fá afrit af greinunum þar sem þær eru ekki aðgengilegar í opnum aðgangi hjá útgefendum.
 
Myndin er fengin á Facebook-síðu greinarhöfundar.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is