Menntaráðstefna FEIF á Hólum í mars | Háskólinn á Hólum

Menntaráðstefna FEIF á Hólum í mars

Vakin er athygli á Menntaráðstefnu FEIF 2018, sem verður haldin hér heima að Hólum dagana 23. - 25. mars nk.

Á ráðstefnunni verður boðið upp á metnaðarfulla dagskrá með umfjöllun um nútímalegar kennslu- og þjálfunaraðferðir í hestamennsku, og verður hún ýmist reidd fram sem sýnikennsla eða fyrirlestrar.

Sérstök áhersla verður á hina kerfisbundnu aðferðafræði sem reiðkennaranámið við Háskólann á Hólum er byggt á og munu reiðkennarar skólans gegna lykilhlutverki í þeim hluta dagskrárinnar.

Auk þeirra munu nokkrir gestafyrirlesarar koma við sögu, og má þar meðal annarra nefna hinn þekkta tamningameistara Eyjólf Ísólfsson, Harald Müller menntunarstjóra hjá FEI og Isley Authy sem m.a. hefur ritað bækur um þjálfun knapa (coaching). 

Enn fremur verður litið til framtíðar með umfjöllun um nýjustu tækni við kennslu og þjálfun hrossa.

Dagskráin hefst kl. 16:00 föstudaginn 23. mars og stendur til kl. 14:00 á sunnudag.

Þess ber að geta að ráðstefnan verður haldin á ensku, og nánari upplýsingar á því tungumáli, ásamt skráningareyðublaði er að finna hér. Sjá einnig frétt á Hólavefnum á ensku.

Með því að smella hér má nálgast rafrænt skráningarskjal (á íslensku). Rétt er að taka fram að skráning tekur ekki gildi fyrr en greiðsla hefur borist (greiðsluupplýsingar er að finna í skjalinu). Sérstök afsláttarkjör eru í gildi fram til 20. janúar.

Reiðkennarar og þjálfarar eru hvattir til að láta þessa áhugaverðu ráðstefnu ekki fram hjá sér fara.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is