
Sagt er frá því á heimasíðu Landssambands hestamannafélaga að á dögunum var kynntur landsliðshópur Íslands í hestaíþróttum fyrir árið 2021, bæði í flokki fullorðinna og ungmenna.
Það var Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari fullorðinna sem tilkynnti valið á liðinu í flokki fullorðinna og Hekla Katharína Kristinsdóttir landsliðsþjálfari U21-hópsins sem tilkynnti valið á ungmennahópnum.
Í fullorðinshópnum eru alls 22 knapar og þar af eru tveir starfandi reiðkennarar Hestafræðideildar Háskólans á Hólum, þeir Konráð Valur Sveinsson og Þórarinn Eymundsson.
Í landsliðshópi fullorðinna eru 11 útskrifaðir reiðkennarar frá Háskólanum á Hólum og einn af knöpunum stundar nám við skólann.
Í ungmennahópnum eru alls 17 knapar og þar af eru þrír sem stunda nám við Hestafræðideild Háskólans á Hólum, og landsliðsþjálfarinn Hekla Katharína Kristinsdóttir er útskrifaður reiðkennari frá Hólaskóla og starfaði sem reiðkennari við skólann í einn vetur.
Háskólinn á Hólum óskar öllum knöpunum til hamingju með að vera í landsliðshópnum.
Fram kemur á heimasíðu Landsambands hestamanna að mikið utanumhald er um landsliðshópana og dagskrá vetrarins liggur fyrir. Meðal annars er fylgst með líkamsástandinu á knöpunum með því að gera líkamlegar mælingar og hópunum er boðið uppá ýmsa fræðslu og fyrirlestra yfir árið.
Þann 5.nóvember hélt Guðrún J. Stefánsdóttir dósent við Hestafræðideild Háskólans á Hólum fræðslufyrirlestur í gegnum Zoom fyrir landsliðshópana um fóðrun keppnishesta og stöðu þekkingar á þjálfunarlífeðlisfræði íslenska hestsins.
Við hjá Háskólanum á Hólum hlökkum til að fylgjast með framgangi íslenska landsliðsins á árinu 2021 og óskum knöpunum og þjálfurunum góðs gengis.