Líffræðileg fjölbreytni í grunnvatni á Íslandi

Í síðustu viku sögðum við frá því að þrjú verkefni, sem stýrt er af starfsmönnum Háskólans á Hólum, hafi hlotið styrkloforð frá Rannís. Í dag segjum við nánar frá einu þessara verkefna, sem ber yfirskriftina Líffræðileg fjölbreytni í grunnvatni á Íslandi.

Verkefninu er ætlað að auka skilning á þeim þáttum er leiða til, viðhalda og breyta líffræðilegri fjölbreytni. Þetta er sérstaklega mikilvægt nú á dögum þegar líffræðileg fjölbreytni jarðarinnar breytist hratt. 

Líta má á íslensk ferksvatnskerfi sem kjörinn vettvang til rannsókna á þessum þáttum - nokkurs konar náttúrulega tilraunastofu. Í þessu sambandi má sérstaklega horfa til lífríkis kalds grunnvatns og linda á Íslandi. Þessi búsvæði hafa lítið verið rannsökuð, en hafa líklega hátt vísindalegt gildi. Í rannsókninni verður unnið að kortlagningu líffræðilegrar fjölbreytni í grunnvatni og blöndunarsvæði þess við yfirborðsvatn í ám og lindum. Samsetning fæðuvefs á þessum búsvæðum verður könnuð sérstaklega, sem og hvernig fæðuvefur grunnvatns tengist fæðuvef yfirborðsvatns.
 
Aðstandendur rannsóknarinnar telja að þeir muni geta tengt saman þá fjölbreytni, sem þeir koma til með að sjá, við fjölbreytileika í vistfræðilegum þáttum, sérstaklega hvað varðar hitastig og næringarefnaframboð. Niðurstöður rannsóknarinnar munu gefa mikilvægar upplýsingar varðandi nýtingu og verndun grunnvatnsauðlindarinnar. Þess utan munu niðurstöður verkefnisins hafa mikið vísindalegt gildi, í enn víðara samhengi.
 
Þetta er doktorsverkefni Dan Govoni, sem brautskráðist með MS í sjávar- og vatnalíffræði frá Háskólanum á Hólum árið 2011. Auk þess er reiknað með að ráða annan nemanda að verkefninu, sem stýrt er af Bjarna K. Kristjánssyni.
Samstarfsaðilar eru Jón S. Ólafsson, Veiðimálastofnun, og Mark Wipfli, Háskólanum í Alaska, Fairbanks.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is