Leiðin á Landsmót | Háskólinn á Hólum

Leiðin á Landsmót

Eitt af lokaverkefnunum í BS-náminu í reiðmennsku og reiðkennslu er reiðkennslusýning.  Þá vinnur nemendahópurinn allur saman að uppsetningu og æfingum, allt frá því að þema sýningarinnar er valið og þar að henni sjálfri er komið. Sýningarnar hafa ýmist verið haldnar í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki, í Léttishöllinni á Akureyri eða  jafnvel sunnan heiða, í Samskipahöllinni (Sprettshöllinni).
 
Þemu sýninganna hafa verið af ýmsum toga, til dæmis samanburður á reiðmennsku og tamningaaðferðum fyrr og nú. Í fyrra var sýningin liður í Hestadögum 2017 og þar var gæðingafimi tekin fyrir, með það að markmiði að auka skilning áhorfenda á gæðingafimi sem keppnisgrein, hvort sem er fyrir atvinnumenn eða áhugamenn.
 
Þann 20. apríl í ár héldu 17 Hólanemar, ásamt reiðkennurum sínum, til Akureyrar og tóku þátt í Norðlensku hestaveislunni. Yfirskrift sýningarinnar í ár var Leiðin á Landsmót,  og þemað var gæðingakeppni. Þar var farið yfir sögu gæðingakeppninnar, reglur og dómgæslu,  og  enn fremur fjallað um uppbygginu og undirbúning keppnishests sem stefnt er með í gæðingakeppni.
 
Eins og til dæmis má sjá á Facebook-ummælum margra áhorfenda var sýningunni mjög vel tekið, nú sem endranær, enda leggja nemendurnir og kennarar þeirra ávallt mikla vinnu og metnað í þetta verkefni.
 
Það var Hestamannafélagið Léttir sem tók á móti Hólanemunum í ár, og forsvarsmenn félagsins veittu okkur góðfúslegt leyfi til að nýta meðfylgjandi myndir, sem upphaflega birtust á Facebooksíðu félagsins. Með leyfinu fylgdu  bestu kveðjur og þakkir fyrir komuna. Við þökkum sömuleiðis, fyrir móttökurnar.
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is