Hraði á gangtegundum íslenska hestsins, vísindagrein | Háskólinn á Hólum

Hraði á gangtegundum íslenska hestsins, vísindagrein

Í birtingarferli (in press) í tímaritinu „Comparative Exercise Physiology“ er vísindagrein þar sem fjallað er um hraða á gangtegundum íslenska hestsins. Höfundar greinarinnar eru Guðrún J. Stefánsdóttir, Anna Jansson, Sveinn Ragnarsson og Víkingur Gunnarsson.  Titill vísindagreinarinnar er „Speed of gaits in Icelandic horses and relationships to sex, age, conformation measurements and subjective judges’ scores“. Greinin er afurð samstarfs vísindamanna við Háskólann á Hólum og sænska landbúnaðarháskólans, auk margra knapa og fleiri aðila. Vísindagreinin er aðgengileg í fullri lengd á vef Wageningen Academic Publishers
Markmið rannsóknarinnar var að mæla meðalhraða og mesta hraða á öllum gangtegundum hjá íslenskum hrossum á kynbótasýningu, sem og að mæla hver breytileikinn var í hraðanum milli hrossa. Einnig að kanna hvort hraði á gangtegundum hefði áhrif á einkunnir fyrir gangtegundirnar og hvort munur væri á hraða eftir kynferði hrossanna, aldri og líkamsmálum. Rannsóknin var gerð á 266 hrossum (180 hryssum og 86 stóðhestum). Hraðinn var mældur með GPS-tæki í reiðdómi á kynbótasýningu. Upplýsingar um líkamsmál hrossanna og dóma fengust úr Worldfeng.
 
Mynd: Njáll frá Friðheimum og Hulda Gústafsdóttir í kynbótasýningunni á Hellu 2011.
Meðalhraði hrossanna í rannsókninni var meiri á tölti en brokki.
 
Hraði hafði áhrif á einkunnir fyrir allar gangtegundir, mest á einkunnir fyrir skeið (53% af breytileikanum í einkunn, útskýrður með hraða) en minnst áhrif á einkunnir fyrir hægt tölt og fet (hraði útskýrði 3% og 2% af breytileikanum í einkunnum).
Stóðhestar fóru hraðar en hryssur á tölti, brokki, skeiði og hægu stökki. Hross sem voru 7 vetra og eldri og 6 vetra fóru hraðar á skeiði og hægu stökki en 4 vetra hross. Líkamsmál hrossanna höfðu mest áhrif á hraða á skeiði og feti, þar sem hraði á þessum gangtegundum var meiri með aukinni hæð á herðar, hæð á lend, skrokklengd og fótahæð.
Höfundar telja að hlutlægar mælingar á hraða (t.d. GPS) eigi að nota í framtíðinni við að meta gangtegundir hjá íslenskum hrossum á kynbótasýningum, en það geti aukið stöðlunina á matinu og þar með erfðaframfarir í ræktuninni.
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is