Hólafólk heimsækir Háskólann í Suðaustur-Noregi

Á dögunum fór hópur kennara úr Ferðamáladeild og Fiskeldis- og fiskalíffræðideild til Bø i Telemark í Noregi.
 
Tilgangur ferðarinnar var að funda með samstarfsfólki í þverfaglegum samstarfsverkefnum skólanna tveggja, ásamt því að taka þátt í North Atlantic Forum ráðstefnunni.
 
North Atlantic Forum er tengslanet fræðimanna og annarra hagsmuna- og áhugamanna um málefni dreifðra byggða á Norður-Atlantshafssvæðinu. Markmið tengslanetsins er að efla þverfaglegt samstarf og yfirfærslu þekkingar samfélaga á milli, í þeim tilgangi að byggja upp sterk sjálfbær samfélög. Þetta er meðal  annars gert með rannsóknum og þróunarverkefnum, og er lögð áhersla á samvinnu mismunandi hópa, í einkageiranum jafnt sem hinum opinbera. Tengslanetið, sem á varnarþing í Memorial University á Nýfundnalandi, heldur ráðstefnu annað hvert ár og var ein slík haldin að Hólum í júní 2013. 
 
Háskólinn á Hólum og Háskólinn í Suðaustur-Noregi eiga þverfaglegt samstarf á sviði ferðamála og vistfræði,  í gegnum rannsóknarverkefnið Samspil mannlegra athafna og vistkerfa á Norðurslóðum, þar sem ferðaþjónusta er tekin fyrir sem dæmi um slíkt samspil. Þá er unnið að því að festa í sessi samstarf skólanna um meistaranám og doktorsverkefni. 
 
Skúla Skúlasyni, prófessor í Fiskeldis- og fiskalíffræðideild, var boðið að vera einn af aðalfyrirlesurum ráðstefnunnar. En auk hans héldu fjórir starfsmenn Háskólans á Hólum erindi á henni. 
 
Auk ráðstefnu- og samstarfsfunda var farið í skoðunarferð um iðnaðarminjar í Rjukan og Notodden, sem eru á heimsminjaskrá UNESCO.  
 
3. október 2017. Laufey Haraldsdóttir og Bjarni K. Kristjánsson.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is