Hlutverk leiðsögumanna og framlag þeirra til náttúruverndar | Háskólinn á Hólum

Hlutverk leiðsögumanna og framlag þeirra til náttúruverndar

Nú um áramótin var gefin út rannsóknarskýrsla, á vegum Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum.  Í skýrslunni segir frá rannsókn Önnu Vilborgar Einarsdóttur, lektor við deildina, á hlutverki leiðsögumanna og framlagi þeirra til náttúrurverndar. Rannsóknin fór fram sumarið 2017. 
 
Hvatinn að rannsókninni voru fréttir af ágangi á náttúru Íslands, sjálfu fjöreggi ferðaþjónustunnar, sem er undir álagi vegna síaukins fjölda ferðamanna. Leiðsögumenn eiga í mestum samskiptum við erlent ferðafólk og eru hlutverk þeirra fjölþætt. Eitt er að mæta væntingum gestanna um ógleymanlega upplifun og annað að vera fyrirmynd í umgengni við samfélög og náttúru. 
 
Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja hlutverk leiðsögumanna í starfi, um leið og sjónum var beint að framlagi þeirra til náttúruverndar í ferðum á náttúruskoðunarstaði víða um landið.
 
Gerð var þátttökuathugun í átta ólíkum dagsferðum. Enn fremur voru tekin viðtöl við sjö aðra leiðsögumenn, félaga í Leiðsögn, félagi leiðsögumanna. Vegarnesti leiðsögumanna til starfsins var skoðað, út frá opinberum gögnum úr leiðsögunámi og gögnum ferðaþjónustufyrirtækjanna.
 
Niðurstöður gefa vísbendingar um að starf leiðsögumanna sé hvort tveggja í senn, af tæknilegum og félagslegum toga. Þeir eru gestrisnir, mennta um land og þjóð og hvetja til varkárni þar sem hætta er á slysum. Umfjöllun um náttúru landsins tekur að miklu leyti mið af jarðfræðilegum fyrirbærum og virðist hlutur náttúruverndar vera rýr, bæði í gögnum ferðaþjónustufyrirtækjanna og umfjöllun leiðsögumanna, en vel sýnilegur í umgengni þeirra við náttúruna. Fjallað er um náttúruvernd í leiðsögunámi en skerpa má á áherslum, því eftirfylgni umræðunnar virðist lítil þegar út í starfið er komið.
 
Skýrsluna má nálgast með því að smella hér
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is