Fyrirlestrar framundan | Háskólinn á Hólum

Fyrirlestrar framundan

Í síðustu viku minntum við á áhugaverða gestafyrirlestra á vegum skólans, föstudagsfyrirlestrana í Verinu og Vísindi og graut hjá Ferðamáladeildinni.

Í dag vekjum við hins vegar athygli á nokkrum fyrirlestrum sem starfsmenn Háskólans á Hólum munu halda annars staðar á næstunni.

Á morgun heldur Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sinn árlega Þjóðarspegil. hinn XX. í röðinni. Þjóðarspeglinum er ætlað að vera vettvangur fyrir fræðilega umræðu um það sem efst er á baugi innan félagsvísinda hverju sinni, og akademískir starfsmenn Ferðamáladeildar leggja þar yfirleitt eitthvað af mörkum. Að þessu sinni mun Ingibjörg Sigurðardóttir lektor taka þátt í málstofu um markaðsfræði og þjónustustjórnun, og nefnir hún sitt framlag Gæði, ímynd, árangur. Og Jessica Faustini Aquino lektor við Ferðamáladeild mun stýra málstofunni Community Based Initiatives, þar sem hún kemur sjálf að tveimur erindum.

Þriðjudaginn 5. nóvember nk. boða Rannís og Vísinda- og tækniráð til Rannsóknaþings 2019, og er áætlað að það standi kl. 14:00 - 16:30, á Grand Hótel Reykjavík. Þar verður sjónum beint að því sem framundan er í alþjóðlegu samstarfi í rannsóknum og menntamálum. Meðal frummælenda verður Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, og mun hún fjalla um sóknarfæri sérhæfingar og samstarfs. Rannsóknaþing er öllum opið, en nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku.

Að lokum má svo benda á að þann sama þriðjudag, 5. nóvember nk., mun Stefán Óli Steingrímsson, prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild, flytja fyrirlesturinn Salmonid behaviour in space & time: Some lessons from Iceland, í sal 5F416 í háskólanum í Karlstad í Svíþjóð. Fyrirlesturinn hefst kl 13:15 að sænskum tíma, og eru allir velkomnir.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is