Frábær árangur reiðkennara skólans | Háskólinn á Hólum

Frábær árangur reiðkennara skólans

Nýlega voru Mette Mannseth yfirreiðkennari Háskólans á Hólum og Gísli Gíslason í Þúfum útnefnd hrossaræktendur ársins 2020. Þetta í fyrsta skipti sem þau hljóta þessa útnefningu en þau hafa nokkrum sinnum áður verið tilnefnd. Mette sýndi einnig og ræktaði hæst dæmdu fjögurra vetra hryssu ársins, Eygló frá Þúfum. Hægt er að sjá viðtal við Gísla og Mette á vef Eiðfaxa.

Fleiri kennarar við Hestafræðideild Háskólans á Hólum náðu líka frábærum árangri í ár. Má þar nefna Þórarinn Eymundsson sem meðal annars kennir þjálfun kynbótahrossa við skólann. Þórarinn gerði það sérlega gott í brautinni og var með efstu hryssu í 5 vetra flokki, þriðju hæstu einkunn í flokki 6 vetra hryssna og þriðju hæstu einkunn í flokki stóðhesta 6 vetra og eldri.
Þórarinn gerði sér einnig lítið fyrir og reið stóðhestinum Vegi frá Kagaðarhóli í hæstu aldursleiðréttu hæfileikaeinkunn ársins (9,03) án áverka. Það er gaman að segja frá því að hesturinn er ræktaður af og í eigu tveggja kennara við skólann, þeirra Guðrúnar Jóhönnu Stefánsdóttur og Víkings Þórs Gunnarssonar.

Í lok síðustu viku var svo tilkynnt að Konráð Valur Sveinsson sem hóf störf sem reiðkennari við skólann nú í haust, hefði verið valinn skeiðknapi ársins 2020, og er það í þriðja skiptið sem hann hlýtur þann titil.

Að lokum langar okkur að nefna að á hverju ári tilnefna aðildarlönd FEIF reiðkennara til „Best FEIF instructor/trainer of the year“. Að þessu sinni er tilnefndur fyrir hönd Íslands Ísólfur Líndal Þórisson. Ísólfur starfar sem reiðkennari við Háskólann á Hólum auk þess sem hann er er með reiðkennslu, þjálfun og hrossarækt á Lækjamóti.
Menntanefnd LH er sammála um að Ísólfur er dæmi um hæfileikaríkan reiðkennara sem gerði sem mest úr þessu einkennilega ári og náði að gera kennsluna aðgengilega hestafólki um allan heim.

Við hjá Háskólanum á Hólum óskum þeim öllum innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.

 

 

 

Mette, mynd: Árni Hrólfsson  Konráð Valur, mynd:Mbl.is  Þórarinn, mynd:úr einkasafni.  Ísólfur, mynd:lhhestar.is

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is