Fiskeldis og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum fær rannsóknarstyrk frá NordForsk | Háskólinn á Hólum

Fiskeldis og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum fær rannsóknarstyrk frá NordForsk

Fiskeldis – og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum er þátttakandi í sam-norrænu rannsóknarverkefni sem nýlega hlaut styrk frá NordForsk. NordForsk er rannsóknarsjóður sem heyrir undir Norræna ráðherraráðið en þar eru Eystrasaltslönd að auki.

Verkefnið heitir „Physiology shapes the happy salmon – a systems approach to sustainable feeds for stimulation of growth, welfare and survival (Happy salmon)“ íslenska vinnuheitið er Glaður lax.
Markmiðið er að auka þekkingu og bæta árangur við framleiðslu laxasmolta, samhliða aukinni notkun sjálfbærra hráefna í fóðri fyrir lax. Smoltun laxfiska er merkilegt umbreytingar- og aðlögunarferli breytingarinnar frá lífi í ferskvatni að lífi í sjó. Það felur í sér röð lífeðlisfræðilegra breytinga sem miða að því að þola líf í söltu vatni. Smoltuninni fylgir álag á fiskinn og getur leitt til lakari fóðurtöku og vaxtar og jafnframt komið niður á heilbrigði og velferð fisksins. Í laxeldi eru afföll fiska í kjölfar útsetningar seiða í sjó ekki óalgeng og oft helsta tímabil affalla á öllum framleiðslutímanum. Hráefni í fiskafóður eru í eðli sínu takmörkuð auðlind. Aukin sjálfbærni laxeldis miðar að því að nýta hráefni m.a. frá örþörungum og skordýrum. Þá er mikilvægt að þekkja hvernig og hversu vel þau gagnast fiskinum, með heilbrigði hans og velferð að leiðarljósi.
Verkefninu er stýrt af Háskólanum í Gautaborg og meðal annara þátttakenda er Háskólinn í Bergen, fóðurverksmiðjan Skretting og íslensku fiskeldisfyrirtækin Artic fish og Laxar fiskeldi. Heildar styrkurinn er um 145 milljónir og koma um 29 milljónir í hlut Hólaskóla.
 
Ólafur Sigurgeirsson
Mynd: Áframeldistankar fyrir laxaseiði hjá Arctic Fish  á Tálknafirði.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is