Verið | Háskólinn á Hólum

Verið

 

VERIÐ - Vísindagarðar ehf.

Tilgangur félagsins er að annast rekstur kennslu- og rannsóknaraðstöðu í formi vísindagarða í tengslum við Háskólann á Hólum. Félagið stefnir að enn frekari uppbyggingu á þessu sviði með því að skapa aðstöðu og vettvang til aukins samstarfs atvinnulífs, skóla og rannsóknaraðila. Reynslan sýnir að samstarf atvinnulífs og háskóla á sviði tækni og vísinda með rannsóknir og nýsköpun markaðsafurða að markmiði skilar góðum árangri ef slík miðstöð vísinda og nýsköpunar er rekin í nánum tengslum við öflugan háskóla.

1. Stefna

Markmiðið með stofnun Versins er að annast rekstur kennslu- og rannsóknaraðstöðu ásamt því að skapa aðstöðu og vettvang til samstarfs milli vísindamanna og fyrirtækja á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi. Í Verinu koma saman frumkvöðlar og fræðimenn sem leitast við að rannsaka og finna ný tækifæri og koma þeim á framfæri samfélaginu til hagsældar.

2. Áherslusvið

Stefnt er að því að Verið verði þekkingarsetur í fremstu röð. Í fyrstu er lögð áhersla á fiskeldi og fiskalíffræði, sjávar- og vatnalíffræði ásamt líftækni. Hlutverk Versins -Vísindagarða, er að skapa vettvang fyrir samstarf á þessum sviðum og leiða saman ólíka aðila sem hafa ákveðna sérstöðu og sérþekkingu, hver á sínu sviði. Með slíku samstarfi nýtir hver sína styrkleika en nýtur um leið góðs af styrk annarra.

3. Rannsókna-, kennslu-, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur

Verið er rannsókna-, kennslu-, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur sem nýtur góðs af nærveru við það vísinda- og þekkingarstarf sem fer fram í Háskólanum á Hólum. Sérstaða Versins byggist á nánum innbyrðis tengslum sem myndast á milli þeirra sem starfa í Verinu ásamt tengslum við rannsóknar- og fræðastarf sem unnið er við Háskólann á Hólum. Þetta samband og samstarf ólíkra aðila, sem búa yfir mismunandi þekkingu og reynslu, mun styrkja frumkvöðla og sprotafyrirtæki í viðleitni sinni við að koma hugmyndum sínum og starfsemi á legg.

4. Húsnæði og byggingaframkvæmdir

Verið er til húsa að Háeyri 1 á Sauðárkróki. Húsnæðiðskiptist í fjóra meginhluta: skrifstofurými, rannsóknar- og kennslustofur, eldisrými og þróunarrými.

5. Einkahlutafélagið Verið Vísindagarðar ehf.

Einkahlutafélagið Verið Vísindagarðar ehf var stofnað í janúar 2007. Tilgangur félagsins, samkvæmt samþykktum, er að annast rekstur kennslu- og rannsóknaraðstöðu í formi vísindagarða í tengslum við Háskólann á Hólum.

Framkvæmdastjóri félagsins er Gísli Svan Einarsson

Sími: 4557930
Gsm: 8207930
netfang: gisli@veridehf.is

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is