Alþjóðleg ráðstefna um þjálfunarlífeðlisfræði hesta | Háskólinn á Hólum

Alþjóðleg ráðstefna um þjálfunarlífeðlisfræði hesta

Nýlega var haldin alþjóðleg ráðstefna um þjálfunarlífeðlisfræði hesta, í Lorne í Viktoríuríki í Ástralíu. Þetta er stærsta ráðstefna um þjálfunarlífeðlisfræði hesta í heiminum. Hún er haldin á fjögurra ára fresti og flyst ráðstefnustaðurinn á milli landa og stundum heimsálfa. Ráðstefnan var fyrst haldin í Oxford á Englandi árið 1982 og mun næst verða í Uppsala í Svíþjóð árið 2022. 
 
Háskólinn á Hólum tók þátt í ráðstefnunni í Ástralíu en tveir starfsmenn við Hestafræðideild, þau Guðrún J. Stefánsdóttir og Víkingur Gunnarsson, sóttu ráðstefnuna. Þau voru þar með stutt erindi og nokkur veggspjöld. Rannsóknaniðurstöður um íslenska hestinum voru áberandi á ráðstefnunni að þessu sinni og kom Háskólinn á Hólum að flestum rannsóknanna, og þá oftast í samstarfi við erlenda háskóla t.d. sænska landbúnaðarháskólann (SLU) og Háskólann í Utrecht í Hollandi. 
 
Eftirfarandi rannsóknir á íslenska hestinum voru meðal annars kynntar á ráðstefnunni:
 
Áhrif hófhlífa á hjartslátt og öndunartíðni íslenskra hesta á brokki á hlaupabretti 
Hófhlífar (240 g) höfðu engin marktæk áhrif á hjartslátt eða öndunartíðni hjá hestunum í þessari rannsókn. Þjálfunarprófið sem hestarnir fóru í var hins vegar stutt (10 mín. á brokki á hraðanum 16,2 km/klst, eftir 10 mín. upphitun), og fór fram á hlaupabretti án knapa. Þörf er á frekari rannsóknum þar sem unnið er með hestana á meiri hraða og í lengri tíma. Álag á liði fóta var ekki metið í þessari rannsókn. Þetta verkefni var unnið af Elínu Rós Sverrisdottir sem nemendaverkefni á BS stigi við Háskólann á Hólum árið 2016. Leiðbeinandi var Guðrún J. Stefánsdóttir.
 
Áhrif hófhlífa á hreyfingar íslenskra hesta á brokki á hlaupabretti 
Við notkun hófhlífa (240 g) jókst sviftími framfóta á brokki, en skreflengd, skreftíðni og taktur breyttust ekki. Aukinn sviftími á brokki er jákvæður eiginleiki þegar gæði brokks er metið í keppni. Þörf er á frekari rannsóknum um áhrif hófhlífa á gæði gangtegunda, og á álag á liði og fætur. Þetta verkefni var unnið af Söru Høegh, sem nemendaverkefni á BS stigi við Háskólann á Hólum árið 2016. Leiðbeinandi var Víkingur Gunnarsson.
 
Hlutlægt mat á hreyfifræðilegum þáttum gangtegunda íslenska hestsins
Skrefbreytur á gangtegundum voru mældar hjá 26 skólahestum á Hólum, og var það gert með hröðunarnemum á fótum hestanna. Notuð voru a.m.k 200 skref (samtals frá hestunum) til að lýsa skrefbreytum hverrar gangtegundar. Mældir voru þættir eins og taktur, svif, og hve lengi fætur hvíldu á jörðu. Settar voru fram tölulegar niðurstöður um hreyfingar á öllum fimm gangtegundum íslenska hestsins. Aðferðin gefur mikilvægar hlutlægar niðurstöður um gæði gangtegundanna sem nýta mætti til viðbótar við hefðbundnar huglægar aðferðir við mat á gangtegundum íslenska hestsins t.d. í kynbótasýningum og keppni. Verkefnið er samstarfsverkefni Háskólans á Hólum, sænska landbúnaðarháskólans og Háskólans í Utrecht í Hollandi.
 
Áhrif flutnings á landi og í lofti á hjartslátt íslenskra hesta
Hjartsláttur var mældur hjá sex fullorðnum íslenskum hrossum, við flutning með bíl frá Reykjavík til Keflavíkur og með flugi frá Keflavík til Belgíu. Ekki reyndist vera munur á hjartslætti hestanna við flutning með bíl (53 slög/mín.) miðað við með flugi (64 slög/mín.). Hæsti meðalhjartsláttur sem mældist hjá hestunum var við flugtak (100 slög/mín.) og við lendingu (91 slög/mín.). 
Ákveðnir atburðir í fluginu, s.s. flugtak og lending, höfðu mest áhrif á hjartslátt hestanna, sem benti til ákveðinnar streitu eða líkamlegs álags, eins og vöðvaspennu t.d. við að halda jafnvægi í fluginu. Þetta verkefni var unnið af Gústafi Ásgeiri Hinrikssyni sem nemendaverkefni á BS stigi við Háskólann á Hólum árið 2017. Leiðbeinandi var Sveinn Ragnarsson.
 
 
Samband á milli hraða, mjólkursýru og einkunna í kynbótasýningu hjá íslenskum hrossum
Í rannsókninni var kannað hvort samband væri  á milli einkunna fyrir gangtegundir og annars vegar hraða á gangtegundum í kynbótasýningu og hins vegar mjólkursýru í blóði eftir kynbótasýningu. Gögnum var safnað frá 266 hrossum á kynbótasýningu á Hellu vorið 2011. Aðaleinkunn fyrir hæfileika og einkunn fyrir skeið höfðu veikt jákvætt samband við magn af mjólkursýru eftir kynbótadóm. Aðaleinkunn fyrir hæfileika hafði veikt jákvætt samband við meðalhraða í kynbótasýningu og mesta hraða sem hrossin náðu í kynbótasýningu. Einkunnir fyrir stökk og fyrir vilja voru líka með jákvætt samband við mesta hraða sem hrossin náðu í kynbótasýningu.
 
Sambandið sem fannst var veikt, en samantekið sýndu niðurstöðurnar að meiri hraði hafði jákvæð áhrif á einkunnir í kynbótadómi, sem er í samræmi við dómskala kynbótahrossa. Sambandið á milli mjólkursýru (meðaltal ± staðalfrávik: 18,0 ± 6,5 mmól/L) og einkunna sýndi að loftfirrt efnaskipti skipta máli fyrir árangurinn sem hrossin ná í kynbótasýningu. Verkefnið var hluti af doktorsverkefni Guðrúnar J. Stefánsdóttur og var unnið sem samstarfsverkefni Háskólans á Hólum og SLU.
 
Virk hreyfing á milli skeiðspretta og að lokinni keppni í 150 m skeiði hefur áhrif á magn mjólkursýru í blóði
Markmið var að skoða hvort það hefði áhrif á mjólkursýru í blóði að hreyfa hrossin á brokki á milli skeiðspretta á 150 m skeiðkappreiðum, og að keppni lokinni.
 
Mælingar voru gerðar á sex íslenskum skeiðhestum á tveimur dögum (sjö dagar á milli) þar sem hestarnir tóku þátt í 150 m skeiðkappreiðum (tveir sprettir á dag), í skiptitilraun (tvær meðferðir).
Tvenns konar meðferðir: 1) að feta/ standa kyrr, eða  2) að brokka rólega, voru bornar saman á milli spretta (10 mín) og að keppni lokinni. Hestarnir hlupu saman í pörum, þar sem annar hesturinn var hreyfður á feti/kyrr en hinn á brokki á milli spretta og að þeim loknum. Allir hestar fóru í gegnum báðar meðferðir (1 og 2), en hver hestur í gegnum aðeins eina meðferð á dag.
Blóðsýni voru tekin til að mæla mjólkursýru, strax eftir hvern sprett og 10 mínútum síðar.
 
Niðurstöður: Meðalhraði hestanna á skeiði var 11,9 m/s (42,8 km/klst). Það var ekki marktækur munur á mjólkursýru eftir fyrri sprettinn eftir meðferðum (kyrr/fet: 9,9 mmól/L vs. brokk: 8,1 mmól/L). Eftir 10 mín endurheimt var mjólkursýra marktækt hærri eftir meðferð 1 (kyrr/fet) en meðferð 2 (brokk) (kyrr/fet: 10,0 mmól/L vs. brokk: 5,1 mmól/L). Það var ekki marktækur munur á mjólkursýru eftir seinni sprettinn eftir meðferðum (kyrr/fet: 12,4 mmól/L vs. brokk: 10,7 mmól/L) en eftir 10 mín endurheimt var mjólkursýra marktækt hærri eftir meðferð 1 en meðferð 2 (kyrr/fet: 14,4 mmól/L vs. brokk: 7,6 mmól/L). Þessi rannsókn sýndi að virk hreyfing, á rólegu brokki, á milli spretta lækkaði magn mjólkursýru í blóði fyrir seinni sprettinn. Þessar niðurstöður geta haft hagnýtt notagildi því það er hefð fyrir að hross feti eða standi kyrr á milli spretta á skeiðkappreiðum. Rannsóknin var unnin í Wången í Svíþjóð. af Malin Connysson, Söru Sonidsson og Önnu Jansson.
 
Meiri líkamleg geta (hæfileikar) hjá hestum á hóflegri fóðurgjöf
Markmiðið var að rannsaka áhrif af minni líkamsþunga og lægra holdastigi á mjólkursýru í blóði og blóðsykursvörun eftir þjálfun hjá íslenskum hestum.
 
Notaðir voru níu fullorðnir reiðhestar og prófuð var tvenns konar fóðrun, annars vegar hófleg fóðrun (rúlluhey ca 4,5 kg/dag, orka: 8,5 MJ breytiorka/100 kg lífþungi) og hins vegar mikil fóðrun (rúlluhey ca. 8,7 kg/dag, orka: 17,0 MJ breytiorka/100 kg lífþungi). Breytingin á líkamsþunga og holdafari var fengin fram á fimm vikna tímabili, en báðar aðferðirnar við fóðrun voru prófaðar á öllum hestunum. Helmingur hestanna var á hvorri fóðrunar-meðferð í fimm vikur í senn. Rétt er að taka fram að allir hestarnir voru í upphafi rannsóknarinnar í góðum reiðhestsholdum eða aðeins feitir og enginn var í minna en reiðhestsholdum (holdastig 3 á íslenska holdastigunarkvarðanum) meðan á rannsókninni stóð. Hestarnir fengu svipaða þjálfun við báðar meðferðirnar. Á síðustu vikunni fóru hestarnir í þjálfunarpróf á hlaupabretti (vaxandi hraði: 4 x 2 mín, 6,25% halli). 
 
Hestarnir á miklu fóðruninni voru marktækt þyngri en á hóflegu fóðruninni (406 vs. 389 kg) og voru í marktækt hærra holdastigi (6,5 vs. 6,2; skali 1-9). Blóðsykurmagn var marktækt hærra á hóflegu fóðurgjöfinni en á miklu fóðruninni (5,3 vs. 4,8 mmól/L). Magn af mjólkursýru í blóði eftir þjálfunarprófið á hlaupabrettinu var marktækt lægra í hestunum á hóflegu fóðruninni heldur en á miklu fóðruninni (5,6 vs. 6,5 mmól/L) og hraðinn sem hestarnir náðu í prófinu þegar mjólkursýra í blóðinu mældist 4 mmól/L var 0,3 m/s marktækt lægri hjá hestunum á miklu fóðruninni.
 
Ályktun rannsóknarinnar var að hófleg fóðrun bæti líkamlega getu hesta miðað við mikla fóðrun, en frekari rannsókna er þörf til að skilja þá fjölmörgu þætti (t.d. efnaskiptalega) sem liggja þar að baki. Rannsóknin var framkvæmd á Hólum sem meistaraverkefni Tönju Jóhannsdóttur, Einars Ásgeirssonar og Charlottu Liedberg við sænska landbúnaðarháskólann (SLU) og var samstarfsverkefni SLU og Háskólans á Hólum.
 
Offóðrun getur haft áhrif á jafnvægi í hreyfingum íslenskra hesta
Markmiðið var að kanna áhrif af auknum líkamsþunga og hærra holdastigi á jafnvægi í hreyfingum hjá íslenskum hestum í þjálfun. Notaðir voru níu fullorðnir reiðhestar og prófuð var tvenns konar fóðrun, annars vegar hófleg fóðrun (rúlluhey ca 4,5 kg/dag) og hins vegar mikil fóðrun (rúlluhey ca. 8,7 kg/dag). Breytingin í líkamsþunga og holdafari var fengin fram á fimm vikna tímabili, en báðar aðferðirnar við fóðrun voru prófaðar á öllum hestunum. Hestarnir voru þjálfaðir sambærilega á báðum fóðrunar-meðferðum. Rétt er að taka fram að allir hestarnir voru í upphafi rannsóknarinnar í góðum reiðhestsholdum eða aðeins feitir og enginn var í minna en reiðhestsholdum (holdastig 3 á íslenska holdastigunarkvarðanum) meðan á rannsókninni stóð. Jafnvægi í hreyfingum var mælt með nemum hjá hestunum á brokki í hendi á beinni braut bæði á hörðu og mjúku undirlagi. Það var gert bæði fyrir, svo og einum degi og þremur dögum eftir þjálfunarpróf úti á reiðvelli (11 mín, meðaltal hæsta hjartsláttar 217 slög/mín).
 
Hestarnir á miklu fóðurgjöfinni voru marktækt þyngri (406 vs. 389 kg) og sýndu meiri frávik frá jafnvægi í hreyfingum á brokki miðað við hestana á hóflegu fóðurgjöfinni sem voru léttari.
Það var ályktað að meiri líkamsþungi og/eða líkamsfita gætu haft neikvæð áhrif á jafnvægi í hreyfingum (ójafnari hreyfingar). Frekari rannsókna er þörf til að skoða áhrif af líkamsþunga og holdafari til langs tíma á heilbrigði fóta og liða. Rannsóknin var unnin sem meistaraverkefni Tönju Jóhannsdóttur, Einars Ásgeirssonar og Charlottu Liedberg við sænska landbúnaðarháskólann (SLU) og var samstarfsverkefni SLU og Háskólans á Hólum.
 
Áhrif þess að raka/klippa íslenska hesta og nota ábreiður við þjálfun
Samkvæmt sænskum dýravelferðarlögum á að gefa hestum tækifæri til að lifa eðlilegu/náttúrulegu lífi, og það á ekki að nota ábreiður á hesta nema til að verja þá kulda, rigningu eða flugum. En samkvæmt skoðanakönnun sem var gerð á meðal rúmlega 4 þúsund hesteigenda (ýmissa hestakynja) í Svíþjóð notuðu rúm 90% ábreiður á hestana sína þegar þeir settu þá út.
 
Markmið þessarar rannsóknar var a) að mæla áhrif af því að raka/klippa íslenska hesta, við þjálfun og á endurheimt eftir þjálfun og b) að mæla áhrif af því að nota ábreiður á íslenska hesta á endurheimt eftir erfiða þjálfun. Notaðir voru sex hestar sem fóru í gegnum staðlað þjálfunarpróf inni í reiðhöll (sex sprettir, 180 m hver, hámarkshraði á stökki). Prófaðar voru fjórar mismunandi meðferðir, a)  hálfklipptir (framan á hálsi, yfir bóga og undir kvið) b) óklipptir (fullur vetrarfeldur) c) hálfklipptir (framan á hálsi, yfir bóga og undir kvið) og ábreiða (ullar) strax eftir þjálfunarprófið d) óklipptir (fullur vetrarfeldur) og ábreiða (ullar) strax eftir þjálfunarprófið.
 
Fylgst var með öndunartíðni hestanna og efnaþáttum í blóði sem sýndu hversu fljótir hestarnir voru að jafna sig eftir þjálfunarprófið.
Niðurstöður sýndu að klippt hross höfðu lægri öndunartíðni (32 andardrættir/mín) en óklipptu hrossin (84 andardrættir/mín) eftir 20 mínútna endurheimt og einnig eftir 30 mín endurheimt (16 vs. 50 andardrættir á mín). Óklippt hross urðu að nota aukna öndunartíðni til að losa sig við hita í endurheimtinni eftir þjálfunarprófið. Notkun ábreiðu stytti ekki endurheimtartímann eftir þjálfunaprófið t.d. voru hestar undir ábreiðu lengur að jafna líkamshitann eftir þjálfunarprófið.
Rannsóknin var unnin í Wången af sænskum vísindamönnum við SLU.
 
 
Guðrún Jóhanna Stefánsdóttir
 
 
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is