Náttúra og umhverfi | Háskólinn á Hólum

Náttúra og umhverfi

Af Hólabyrðu. Mynd Helgi SigurðssonVeðurfar 

Mikill munur er á veðurlagi neðst í Hjaltadal/Kolbeinsdal og fremst í dalbotnum. Í mynni dalanna gætir sjávaráhrifa mikið með mildara loftslagi á vetrum. Á sumrin er meira staðviðri fram í dölunum, hlýrra á daginn en svalara á nóttunni.

Í báðum dölunum getur verið mikill snjór og meiri í Kolbeinsdal. Sunnan við Hjaltadal er tiltölulega snjólétt miðað við önnur svæði á Norðurlandi.

Í þröngum dölum getur vindur blásið hressilega og á það sérstaklega við í suðlægum áttum í janúar – mars. Ekki eru þessir vindar þó algengir. Í Hjaltadal eru leiðinlegustu vindáttir að öllu jöfnu suðvestan áttir og þá sérstaklega á vesturlínunni frá Viðvík upp fyrir Kálfsstaði. Á þessu svæði nær suðvestanáttin sér oft verulega á strik og getur verið byljótt og þreytandi. Norðanáttir eru ekki áberandi í Hjaltadal og í hluta hans verður sáralítið vart við norðaustanáttina sem getur verið hvöss og algeng neðan við dalinn. Í Kolbeinsdal gætir austanáttar mun meira en í Hjaltadal og getur hún náð sér verulega á skrið niður dalinn. Þegar fram í báða dalina er komið gætir hafgolu á sumrin minna en neðan til og hiti getur á góðum dögum farið vel yfir 20 gráður og hefur mælst hæstur 26 gráður í Dalsmynni sumarið 2004. Óstaðfestar mælingar sýndu fram í dal á sama tíma 30 gráður.

Jarðfræði
Aldur jarðlaga í Hjaltadal er ætlaður frá 8-9 milljón ár, þ.e. frá tertíertímanum. Megnið af jarðlagastaflanum eru basalt lög en innst á Hjaltadalsheiði er hægt að greina líparítlög sem benda til nálægðar við megineldstöð.

Jarðlög og landmótun

Á tertíer var vatnstrof ríkjandi við mótun landsins og surfu dali niður í jarðlagastaflann. Hefur það rof verið til muna aflminna og hægvirkara en það sem varð með komu jökla á ísaldartíma. Ekki huldist Tröllaskaginn allur jökli á síðasta jökultíma og og virtust dal- og skálarjöklar hafa ráðið miklu um rof og landmótun. Byltust þeir niður dalina og náðu niður úr þeim. Þegar hlýnaði þá hopuðu jöklarnir í rykkjum sem einkenndust af hörfun og framskriði á víxl. Hægt er að sjá þar sem jöklarnir hafa skriðið fram á nýjan leik og skilið eftir sig hóla og hæðir, sjá t.d. Garðakotshæðirnar og Sviðningshóla.

Fyrir botni Kolbeinsdals á sýslumörkum er hæsta fjall Skagafjarðar Hólamannahnjúkur 1406 m. Til samaburðar má geta um hæð nokkurra þeirra fjalla sem eru næst okkur á Hólum, Hólabyrða 1245 m, Þríhyrningar 1030 m, Hagafjall 1209 og Hafrafell 1283.

Jöklar
Allmargir jöklar eru í Hjaltadal og afdölum hans. Í vesturfjöllum Hjaltadals og Grjótárdals eru margar skálar með sísnæfi og jöklum. Í botni Hellisdals er smájökull og fannir í botni Grasárdalanna. Smájökull er í Lambárdal eins í botni Grjótárdals. Í Sveigskál austan í Hafrafelli er örlítill jökull. Hjaltadalsjökull er í botninum og og fellur einnig til Hörgárdals. Í Héðinsdal eru í báðum botnunum og er sá syðri allmikill. Sá nyðri liggur upp í Héðinsskarð. Í Hofsdal eru smáskæklar í norðurhlíð Hagafjalls og allmikill jökull í botninum. Í Fremri Grjótárdal og Hóladal eru smájöklar og eins í Lambárdal. Í botnum Kolbeinsdals í Vesturdal og Austurdal liggur Tungnahryggsjökull (alls um 12,5 km2), sitt hvor meginn við Tungnahrygg. Tengist hann Barkárdalsjökli um Hólamannaskarð. Að norðanverðu í Kolbeinsdal er smájökull í botni Ingjaldsskálar.

Jarðhiti
Brotakerfi það sem liggur ofan af hálendinu og eftir vestanverðum Tröllaskaga norður í Fljót og Siglufjörð virðist stjórna uppstreymi heits vatns á öllu þessu svæði.

Besta dæmið um tengsl jarðhita og misgengja á þessu svæði er við Reyki í Hjaltadal. Þar kemur jarðhiti upp með stóru misgengi á allöngum kafla. Þar er vatnið heitast niðri í dalnum, liðlega 50 gráður, en smávolgrur seytla upp úr misgenginu allt upp í 250 m hæð í hlíðunum sunnan dalsins og eru þær aðeins 15-20 gráðu heitar.

Ár og vötn
Árnar af utanverðum Tröllaskaga, frá Hjaltadal og út úr, eru fyrst og fremst dragár, þó að jökullit setji á sumar í viðvarandi sumarhitum og snjóbráð sé yfirleitt veruleg í þeim á sumrin.

Meðalrennsli Hjaltadalsár er nærri 10 rúmmetrar á sekúndui, en fer iðulega niður í 3 rúmmetra á sekúndu að vetrarlagi, eða enn minna. Algengt sumarvatn fer upp í 40 rúmmetra á sekúndu, en stærstu flóð eru yfir 100 rúmmetrar á sekúndu. Eyrar miklar eru að ánni og þverám hennar, sem koma fram úr minni dölum en djúpum þó, því að fjöll eru þarna um og yfir 1.000 m á hæð. Koma lindir sums staðar upp úr eyrum þessum, en enn meira grunnvatn mun vera á ferð niðri í mölinni. Fiskeldið á Hólum notar bæði lindavatn og grunnvatn úr eyrunum. Sennilega eru vatnsgæfustu svæðin við aursvuntu Hofsár.

Unnið upp úr texta Hjalta Þórðarsonar, landfræðings

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is