Guðbrandsstofnun | Háskólinn á Hólum

Guðbrandsstofnun

Guðbrandur Þorláksson

Guðbrandsstofnun er sjálfstæð rannsókna- og fræðastofnun við Háskólann á Hólum og starfar hún samhliða deildum hans.  Aðilar að henni eru Hólaskóli, embætti vígslubiskups á Hólum f.h. Þjóðkirkjunnar og Háskóli Íslands. Hún lýtur sérstakri stjórn og hefur sjálfstæðan fjárhag. Í stjórninni sitja Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup formaður, Erla Björk Örnólfsdóttir rektor Háskólans á Hólum og Hjalti Hugason prófessor, fulltrúi Háskóla Íslands. 

Markmið stofnunarinnar er að treysta þekkingu á sviði ýmissa fræðigreina, einkum guðfræði, sögu, bókmennta, fornleifafræði, siðfræði, prentlistar og sögu, kirkjulistar, tónlistar og myndlistar og að auki á sviði þeirra greina raunvísinda sem stundaðar eru bæði við Háskóla Íslands og Hólaskóla.

Guðbrandsstofnun er kennd við Guðbrand Þorláksson, einn helsta biskup sem setið hefur Hólastað. Hlutverk hans í íslenskri menningarsögu var mikið, bæði sem kennimanns, forvígismanns á sviði prentlistar og útgáfustarfsemi auk þess sem hann lagði stund á myndlist og hafði þekkingu á náttúrufræði.

Um Guðbrand Þorláksson

Guðbrandur fæddist 1541 eða 1542 á Staðarbakka í Miðfirði, sonur Þorláks Hallgrímssonar prests þar og Helgu Jónsdóttur Sigmundssonar, þess er átti í deilunum við Gottskálk biskup grimma. Guðbrandur fór ungur til náms í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan 1559 en nam í Hafnarháskóla næstu ár. Hann varð síðan skólameistari í Skálholti frá 1564-1567, vígðist þá prestur að Breiðabólstað í Vesturhópi en varð árið eftir skólameistari á Hólum. Eftir lát Ólafs biskups Hjaltasonar var Guðbrandur skipaður biskup á Hólum, vígður 8. apríl 1571. Gegndi hann því embætti til dauðadags, 20. júlí 1627 eða í 56 ár, lengst allra manna á Íslandi.

Gáfumaður og listrænn
Guðbrandur Þorláksson var fjölgáfaður og mikill lærdómsmaður. Hann efldi skólann á Hólum og kenndi hann þar meðal annars Arngrími lærða, Oddi biskupi Einarssyni og síra Magnúsi Ólafssyni í Laufási sem allir urðu nafnkenndir fræðimenn. Guðbrandur var vel að sér í náttúruvísindum, stærð- og stjörnufræði, mældi t.d. hnattstöðu Íslands fyrstur manna og gerði kort af landinu. Þá var hann einkar listfengur í höndum á skurð og smíðar og hefur verið talið að í Þjóðminjasafni sé kistill og ef til vill fleiri gripir með útskurði hans.

Skörungur
Hann átti jafnan í deilum við veraldlega valdsmenn og fór þá stundum fram meira með kappi en forsjá enda var hann skörungur mikill og stjórnsamur.

Fjölskylda
Kona Guðbrands var Halldóra Árnadóttir og voru börn þeirra: Páll, sýslumaður í Húnaþingi, Kristín kona Ara Magnússonar í Ögri og Halldóra er í raun fór með staðarráð á Hólum síðustu árin er Guðbrandur var lagstur í kör. Fyrir hjónaband átti hann dóttur sem Steinunn hét, móður Þorláks Skúlasonar er biskup varð eftir hann á Hólum.

Prentsmiðjan á Hólum
Eitt af fyrstu verkum Guðbrands var að efla prentsmiðjuna sem var á vegum biskupsstólsins. Eftir nokkra byrjunarörðugleika kom út fyrsta bókin í biskupstíð Guðbrands, Lífsins vegur. Það er ein sönn og kristileg undirvísun hvað sá maður skal vita, trúa og gjöra, sem öðlasst vill eilíft líf eftir Niels Hemmingsen (1513-1600), þekktan kennimann og fræðara í Danmörku. Á næstu árum var m.a. prentuð Guðspjallabók, Orðskviðir Salómons og Jesús Síraksbók í þýðingu Gissurar Einarssonar biskups og loks Biblían 1584, mesta stórvirki Guðbrands.

Þá gaf hann út Sálmabók 1589 og Grallara 1594 (messusöngbók), en síðar m.a. ýmsar bækur Biblíunnar, svo og predikanir, bænabækur og handbækur. Loks skal nefna Eintal sálarinnar eftir Martin Moller í þýðingu Arngríms læra en við hana styðst Hallgrímur Pétursson meðal annars í Passíusálmum sínum.

Alls eru varðveittar 79 bækur, flestar fremur litlar, sem prentaðar voru á Hólum og Núpufelli í tíð Guðbrands en heimildir eru til um 100 bækur frá hans skeiði. Hann er sjálfur talinn höfundur ellefu bóka og þýddi ríflega 30. Margar bókanna komu út oftar en einu sinni, til dæmis Sálmabókin tvisvar og Grallarinn þrisvar.

Úr inngangi að Vísnabók Guðbrands sem Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2000. Innganginn skrifuðu Einar Sigurbjörnsson, Jón Torfason og Kristján Eiríksson.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is