Athafnasvæði hestafræðideildar. Heimild: www.loftmyndir.is |
Stærsta byggingin er Brúnastaðir. Í húsinu eru 189 eins hests stíur, og hluti þeirra hentar fyrir stóðhesta. Það er fyrst og fremst nýtt undir nemendahesta og hesta í eigu skólans, skólahestana. Í suðurenda Brúnastaða er 800 fermetra reiðhöll, Brúnastaðahöllin. Brúnastaðir voru vígðir árið 2007 og þeir eru reknir af sérstöku eignarhaldsfélagi, Hesthólum.
Á háannatímum í verklegri kennslu dugar þetta hesthúsrými ekki til og í „Gamla hesthúsinu“ er pláss fyrir 20-30 hross til viðbótar. Áföst því hesthúsi er Skólahöllin, önnur 800 fermetra reiðhöll, sú fyrsta sem reist var á Hólum. Í tengibyggingu eru m.a. járningaaðstaða og lítil kennslustofa.
Þriðja reiðhöllin, Þráarhöllin, er langstærst (1545 fermetrar), og skartar hún m.a. áhorfendastúku.
Bakka, húsnæði því sem áður hýsti loðdýrabú Bændaskólans á Hólum, hefur verið breytt til annarra nota. Verkstæði skólans og aðstaða staðarumsjónarmanns eru í Efri-Bakka (refahúsinu) en í Neðri-Bakka (minkahúsinu) eru m.a. nokkrar hesthússtíur sem einkum eru nýttar í tengslum við fóðurrannsóknir. Í tengibyggingu er aðstaða til dýralækninga, þar sem hægt er að framkvæma flestar skoðanir og aðgerðir á hestum.
Aðalreiðvöllur skólans er fyrir framan Þráarhöllina.
Fjárhúsum Bændaskólans hefur einnig verið breytt til takts við nýja tíma. „Nýju“ fjárhúsin gegna nú hlutverki starfsmannahesthúss og bera nafnið Skeiðmelur.