Áhugaverðir fyrirlestrar í Verinu | Háskólinn á Hólum

Áhugaverðir fyrirlestrar í Verinu

Föstudagsfyrirlestur Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar var óvenjuvel sóttur í morgun, enda höfðaði umfjöllunarefnið til breiðs hóps áheyrenda, og var hvert sæti skipað í fyrirlestrasalnum í Verinu.

Í upphafi kynnti Rögnvaldur Guðmundsson þróunarverkefni Akvafuture/Akvadesign í notkun lokaðra sjókvía við laxeldi. Að hans sögn hafa þau skilað góðum árangri, hvort sem er litið er á þau frá sjónarhóli umhverfisverndar eða hámarksframleiðslu.

Á eftir Rögnvaldi steig Arne Nilsen í pontu. Arne er dýralæknir og hefur unnið mikið við eftirlit með og rannsóknir á laxalús í norsku fiskeldi. Í fyrirlestri sínum fjallaði hann einkum um þetta viðfangsefni í tengslum við vöxt, afföll og velferð laxa í lokuðum eldiskvíum.

Að loknu kaffihléi tóku svo við kynningar frá nemendum í fiskeldisverkefni Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Nú dvelja sex erlendir nemendur á Sauðákróki og stunda nám undir hatti UNU-FTP, þar sem þeir njóta handleiðslu starfsmanna Háskólans á Hólum í Verinu.

Fyrirlestrarnir voru þannig skipulagðir að hver og einn nemandi hóf mál sitt með því að gefa stutta lýsingu sínu heimalandi, sagði síðan frá fiskeldi þar almennt og loks frá sínum eigin verkefnum. Er óhætt að segja að áheyrendur hafi verið margs vísari í lok fundar, enda koma nemendurnir víða að: Frá Nígeríu, Jamaíku, Kína og St. Lúsíu. 

Föstudagsfyrirlestrar Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar eru, eins og opnir fyrirlestrar Ferðamáladeildar („Vísindi og grautur“), auglýstir á Hólavefnum og sem viðburðir á Facebook, og eru allir velkomnir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is